Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Finnar ætla að lengja fæðingarorlofið

05.02.2020 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Finnska ríkisstjórnin kynnti í dag áform um að lengja fæðingarorlof nýbakaðra foreldra og auka rétt feðra til orlofs.

Verði áformin að veruleika verður fæðingarorlofið lengt í 14 mánuði samtals. Hvort foreldri á rétt á rúmlega 6 mánuðum auk þess sem móðirin fær einn mánuð aukalega sem kallast þungunarleyfi. Hvort foreldri má gefa hinu um það bil þrjá mánuði af sínu leyfi, og verður þar af leiðandi að taka 3 mánuði hið minnsta.

Aino-Kaisa Pekonen, heilbrigðisráðherra Finnlands, kynnti tillögurnar í dag. Hún sagði þær róttækar og með þarfir barnsins í fyrirrúmi. Breytingunum er meðal annars ætlað að hvetja karla til þess að taka lengra fæðingarorlof, en finnskir og danskir karlar eru eftirbátar annarra norrænna karla þegar kemur að því að verja tíma heima með nýfæddum börnum sínum. Íslenskir karlar nýta hlutfallslega best norrænna karla rétt sinn til fæðingarorlofs. Sænskir foreldrar búa við lengsta fæðingarorlof í Evrópu, þar getur hvort foreldri verið í fæðingarorlofi í 34 vikur.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði fyrir stuttu að enn vantaði talsvert upp á að jafnrétti væri náð þar í landi og sagði að of fáir feður verðu tíma með börnum sínum á unga aldri.
 

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV