Finna ekki leið á Vatnajökul vegna aurbleytu

Mynd með færslu
Starfsfólk Veðurstofunar við mælingar í Bárðarbungu. Mynd: Hrafnhildur Hannesdóttir - Jarðvísindastofnun HÍ
Hop jökla hefur lokað hefðbundinni leið á Vatnajökul. Þetta er bein afleiðing loftslagshlýnunar. Jöklarannsóknafélag Íslands hefur farið árlega í vorferð á Vatnajökul í 66 ár. Það hefur komið fyrir að ekki hefur verið fært vegna snjólaga en þetta er í fyrsta sinn sem engin fær leið finnst vegna aurbleytu.

Oftast hefur verið farið á Vatnajökul úr vestri, um Jökulheima og Tungnaárjökul. Tungnaárjökull, eins og aðrir jöklar, hopar nú hratt og undan honum er að koma land sem hefur verið hulið jökli í að minnsta kosti 500 ár, að því er segir á facebooksíðu Jarðvísindastofnunnar Háskóla Íslands.

Loftslagsbreytingar eru því farnar að gera vísindamönnum erfitt fyrir að rannsaka m.a. loftslagsbreytingar á Vatnajökli því ekki er heldur fært um stystu leiðina í Grímsvötn um Tungnaárjökul. 

Í staðinn nýtir vísindafólkið tímann í rannsóknir á jarðhita í Grímsvötnum og Kverkfjöllum ásamt íssjárnmælingum. Þá er unnið að mælingum í Bárðarbungu. Þar er verið að rannsaka hvaða breytingar hafa orðið með auknum jarðhita í kjölfar Holuhraunsgossins fyrir fjórum árum, þar sem askja Bárðarbungu seig um 65 metra. Veðurstofan vinnur að gasmælingum og viðhaldi GPS-mæla á sama tíma.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi