„Finn smá fiðring þegar ég segi frá þessu“

Mynd: RÚV / RÚV

„Finn smá fiðring þegar ég segi frá þessu“

21.02.2020 - 13:40

Höfundar

Helgi Björns er af mörgum talinn lifandi goðsögn sem engum líkist og með takta sem engum tekst að leika eftir, í það minnsta að hans sögn, því það er jú bara einn Helgi Björns. Eftirherman Sóli Hólm freistar þess þó að herma eftir Helga á sumarhátíð popparans í Háskólabíói í apríl.

Ferill Helga Björns spannar meira en fjóra áratugi en hann útskrifaðist úr leiklistarskóla tvítugur og byrjaði strax að syngja og leika. Velgengnina þakkar hann þeirri staðreynd að hann vinni við það sem hann hefur óþrjótandi ástríðu fyrir. Það sé ekki alltaf tekið út með sældinni að vera skemmtikraftur, tekjur stopular og atvinnuöryggi ekkert. Þá hjálpi að vera kærulaus. „Ég hef engar áhyggjur af þessu,“ segir hann hógvær. „Svo þarf maður, eins og góður skipstjóri, að skipta um veiðafæri ef svo ber til. Maður þarf að vera uppfinningasamur líka,“ sagði Helgi í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Helgi hefur tekið upp á ýmsu í tímans rás, gefið út plötur og brugðið sér í ýmis hlutverk bæði í leikhúsi og á skjánum þar sem hann hefur meðal annars leikið sjálfan sig. Eitt eftirminnilegasta hlutverk hans var þegar hann lék eitt aðalhlutverkið í grínþáttunum Ligeglad sem sýndir voru á RÚV fyrir fjórum árum. „Þetta var mjög skemmtileg vinna þó hún væri krefjandi,“ segir Helgi sem lék nokkuð ýkta útgáfu af sjálfum sér, hinn svokallaða Helga „fokking“ Björns á móti grínistanum og skapara þáttanna, Önnu Svövu. „Þegar maður er að fást við að leika sjálfan sig er það erfitt verkefni og það hefði getað brugðið til beggja vona. Ef þetta hefði ekki gengið upp hefði það verið hræðilegt klúður,“ segir hann og hlær.

Áhorfendur geta byrjað að hlakka til þess að sjá Helga aftur á skjánum því hann leikur hlutverk í Ráðherranum sem sýndur verður í haust. Einnig er hann að undirbúa tónlistarveislu sem haldin verður sumardaginn fyrsta. Þar kemur Helgi fram ásamt einvala liði skemmtikrafta og fagnar hækkandi sól á himni og í sinni. „Ég lofa því ekki að það ríði hestur í gegnum salinn í Háskólabíói því ef ég lofa einhverju þá stend ég við það. Ég ætla ekki að lofa því að það gerist ekki.“

Helgi heldur því fram að enginn geti hermt eftir honum en það eru skiptar skoðanir á því. Skemmtikrafturinn Sóli Hólm hefur til dæmis spreytt sig á Helga og hann verður á skemmtuninni sumardaginn fyrsta og freistar þess að sýna fram á að það sé hægt að spyrja: „Eru ekki allir sexí?“ eins og Helgi hefur spurt í áratugi. Salka Sól og Jón Jónsson syngja einnig með Helga sem lofar að útkoman verði gleðisprengja. „Þegar ég segi frá þessu finn ég bara smá fiðring,“ segir hann spenntur að lokum.

Í spilaranum efst í fréttinni má hlýða á viðtal Lovísu Rutar Kristjánsdóttur við Helga Björnsson í Popplandi.

Tengdar fréttir

Tónlist

Helgi Björns og Bjartar sveiflur í Vikunni

Popptónlist

Helgi Björns – Ég stoppa hnöttinn með puttanum