Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fín og meinlaus froða

Mynd: Paramount Pictures /  Paramount Pictures

Fín og meinlaus froða

07.08.2015 - 18:04

Höfundar

Frumlegar hasarsenur í hæfilega kjánalegri mynd bjarga fimmtu myndinni um Ethan Hunt og félaga hans sem leika enn á ný lausum hala í Mission Impossible. Rogue Nation er fín og meinlaus froða, með hasarsenum sem eiga að dansa á mörkum fáránleikans, að mati gagnrýnanda Víðsjár.

Frísklegt afturhvarf

Það kann að hljóma ótrúlega, en Mission Impossible myndirnar eru nú búnar að vera í gangi í tæpa tvo áratugi, eða síðan sú fyrsta kom árið 1996, og að vissu leyti virkar sú nýjasta og fimmta í röðinni, Rogue Nation, eins og nokkurs konar afturhvarf til hasarmynda tíunda áratugarins. Það er ekki alslæmt og í raun frekar frísklegt á tímum þegar nærri allar hasarmyndir fá hina svokölluðu Dark Knight-útlitsmeðferð – allt voðalega myrkt og þungt og melódramatískt og alvarlegt. Þess vegna kættust svo margir þegar Guardians of the Galaxy kom í fyrra, og henni var líkt við gömlu Star Wars myndirnar, því hún var litrík og fyndin og létt á köflum, vissulega kjánaleg, en gerði sitt af ákveðinni gleði og tók sig rétt nógu alvarlega til að virka. Það sama má segja um Mission Impossible myndirnar, sem snúast um ómöguleg atriði, spæjaraleiki, víraðar græjur, og áhorfendur með mjög ákveðnar væntingar um að láta koma sér á óvart með yfirgengilegum lausnum á fáránlegum aðstæðum. Serían hefur alltaf fengið nýjan leikstjóra fyrir hverja mynd, frá Brian de Palma, yfir í John Woo, J.J. Abrams, Brad Bird og nú Christopher McQuarrie, sem er þekktastur fyrir handritin sín – skrifaði m.a. The Usual Suspects og Edge of Tomorrow – en hefur annars leikstýrt költ-þrillernum Way of the Gun og nú síðast Jack Reacher, sem einnig skartar Tom Cruise í hlutverki nokkurs konar spæjaraofurhetju.

Tom Cruise hangandi utan á flugvél

Cruise hefur alltaf verið þungamiðjan í Mission Impossible myndunum og er að vissu leyti orðinn vörumerki sjálfur, að minnsta kosti hvað varðar þær væntingar sem við áhorfendur berum til þess að fara á Tom Cruise mynd í bíó – sérstaklega ef það er Mission Impossible mynd. Mikið hefur verið gert úr því að Tom taki virkan þátt í öllum áhættuatriðum, noti staðgengla sem allra minnst og setji sjálfan sig í bráða hættu við tökur. Þetta er svo sem ekkert nýtt, hann hefur gert það í fyrri myndum líka, en öll markaðsetningin í kringum þessa nýjustu virðist snúast um að upphefja Tom Cruise hangandi utan á flugvél á meðan hún tekur af stað upp í loftið – og allt í alvöru. 

Hæfilega kjánaleg mynd sem nær hámarki í upphafi

Flugvélaratriðið er líka alveg stórkostlegt og einmitt það sem maður vill fá út úr Mission Impossible mynd og þegar Rogue Nation virkar er hún einmitt hæfilega kjánaleg, en hvorki of sjálfsmeðvituð né tekur sig of alvarlega sem þunglamalegt hasardrama. Það er líka gaman að hafa Simon Pegg í stærra hlutverki en áður, gamanpersóna sem vegur upp á móti ofurhetjuleika Tom Cruise. Rogue Nation er að mestu leyti fín og meinlaus froða, með flottum og frumlegum hasarsenum sem eiga að dansa á mörkum fáránleikans, og formúlan gengur oft upp, sérstaklega í fyrri hlutanum, en þar má einkum nefna stórkostleg atriði í plötubúð og í óperuhúsi sem vinna mjög frumlega með staðsetningarnar og eru eftirminnileg fyrir vikið. Myndin fer síðan alveg út fyrir mörk fáránleikans þegar Tom þarf að halda niðri í sér andanum í þrjár mínútur til að brjótast inn í tölvu sem er geymd ofan í vatnstanki undir hámarksgæslu og eftir það tekur myndin líka stóra dýfu niður á við. Plottið í Mission Impossible mynd má alveg vera ruglandi og bjánalegt, við því er svo sem að búast, en hér er það ekkert nema frekar aumt lím til að halda röð hasaratriða saman, og þegar plottið tekur að ná yfirhöndinni í seinni hlutanum fór ég líka alveg að missa áhugann. Það væri svo sem allt í lagi, ef hasarsenurnar dygðu til, en aðalvandamálið kristallast eiginlega í fyrrnefndu upphafsatriði: það er svo svakalega flott, enda auglýst grimmt af góðri ástæðu, að það stendur í raun of sterkt fyrir heildarmyndina, því myndin nær aldrei sömu hæðum aftur eftir það.