Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fimmtíu féllu í loftárásum í Sýrlandi í dag

19.02.2018 - 20:16
Erlent · - · sýrland
Talið er að hátt í fimmtíu almennir borgarar hafi fallið í dag í loftárásum sýrlenskra hersins á yfirráðasvæði uppreisnarmanna, í bænum Saqba í Ghouta-héraði, nálægt höfuðborginni Damaskus. Búist er við árás stjórnarhersins innan skamms.

Mannréttindasamtök sem fylgjast með átökunum í Sýrlandi segja að loftárásirnar hafi verið gerðar af sýrlenska hernum - og margt bendi til þess að hersveitir stjórnvalda undirbúi nú að ná yfirráðum yfir þessum svæðum; þau eru nálægt höfuðborginni, Damaskus, og frá þeim hafa uppreisnarmenn haldið uppi eldflauga- og skotárásum á borgina. Samkvæmt upplýsingum mannréttindasamtaka hafa að minnsta kosti fjörutíu og fjórir fallið í þessum árásum í dag; fjölmargir eru særðir. 

Átökin í Sýrlandi hafa tekið á sig nýja mynd að undanförnu. Hernaðinum gegn samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki er nánast lokið og stjórnarherinn virðist hafa undirtökin í baráttunni við uppreisnarmenn, þótt þeir ráði enn stórum svæðum í landinu. Sýrland er hins vegar orðið að leiksoppi í stöðubaráttu stórveldanna, Bandaríkjanna og Rússlands, og nágrannaríkja á borð við Ísrael, Íran og Tyrkland - sem nú berjast við Kúrda í norðvesturhluta Sýrlands. 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV