Fimmtán smitaðir á Landspítalanum - einn í öndunarvél

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fimmtán manns með staðfest COVID-19 smit eru nú á Landspítalanum. Þar af eru tveir á gjörgæslu og einn í öndunarvél. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á daglegum fundi almannavarna sem hófst klukkan 14. Stór hluti þeirra sem greinst hafa er í sóttkví, sem Þórólfur segir að sé mjög jákvætt. Ljóst sé að faraldurinn sé enn í vexti.

737 eru nú með staðfest smit hér á landi. Það er fjölgun um 89 frá því í gær. Langflestir þeirra sem greindust síðasta sólarhringinn voru greindir á veirufræðideild Landspítalans. Þar var hlutfall greindra smita 17%. Hjá Íslenskri erfðagreiningu var hlutfallið 0,2%.

Þórólfur segir að það sé sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu stór hluti þeirra sem greinast séu í sóttkví, en hlutfallið síðasta sólarhringinn var 57%. Þórólfur segir að þetta sýni glögglega hversu mikilvægu hlutverki sóttkví gegni, enda komi hún í veg fyrir að þeir sem eru smitaðir smiti aðra. Verið sé að stoppa smitaða einstaklinga af mjög fljótt.

Enn í vexti

Þórólfur segir ljóst að faraldurinn sé enn í vexti hér á landi. Nýtt reiknilíkan verði birt síðar í dag, og þá komi betur í ljós hvar við séum stödd í faraldrinum.

Reiknilíkan Háskóla Íslands sýni hins vegar áfram fram á að fjölgun staðfestra smita sé áfram einna minnst hér á landi, þegar tölur eru bornar saman við tölur annars staðar í Evrópu. Þetta segir Þórólfur að sé áframhaldandi hvatning til yfirvalda um að halda áfram á sömu braut; að beita sóttkví og einangrun, að halda fjarlægð milli fólks, hvetja til hreinlætis og að takmarka samkomur.

Sérstaklega er fylgst með smiti hjá börnum sem eru yngri en 10 ára. Þórólfur segir að staðfest tilfelli í þeim aldurshóp séu nú 15. Af 400 sýnum sem tekin hafa verið hjá börnum yngri en 10 ára hafi því 3,7% reynst jákvæð. Þórólfur segir að það sé mjög svipað hlutfall og annars staðar á Norðurlöndunum. Það sé því greinilegt að smit hjá börnum sé mjög sjaldgæft.

Hvað sýnatökupinna varðar segir Þórólfur að 2.000 pinnar hafi komið til landsins í dag, og að nú séu til 3.200 slíkir hér á landi. Von sé á fleiri síðar í vikunni. Þá eru þeir pinnar sem fyrirtækið Össur getur útvegað í rannsókn og Þórólfur segir að von sé á niðurstöðum úr þeirri rannsókn síðar í dag. Þórólfur segir að enginn skortur sé á pinnum og að hann eigi ekki von á því að það verði skortur í framtíðinni.

Áfram skólar en ekkert samgöngubann

Þá segir Þórólfur að embætti landlæknis hafi í dag sent bréf til foreldra, kennara og skólastjórnenda, þar sem hvatt var til þess að börn væru send í skólann. Þórólfur ítrekar að ekki sé talin þörf á því að loka skólum, en leiðbeiningar hafi verið sendar um takmarkanir á skólastarfi. Mikilvægt sé fyrir bæði börnin sjálf og ákveðnar stéttir í samfélaginu að skólastarfi verði haldið áfram. Þórólfur undirstrikaði mikilvægi þess að það sé þó gert án þess að það ógni heilsu barna eða kennara.

Loks minntist Þórólfur á mögulegt samgöngubann, þar sem fólki yrði bannað að ferðast á milli landshluta. Þórólfur segir að árangur gæti náðst með slíku banni ef það væri mjög strangt, og ef því væri beitt í mjög langan tíma, mögulega eitt til tvö ár. Með slíku banni megi fresta faraldrinum, en hann muni þó alltaf koma að lokum í viðkomandi landshluta. Þegar spænska veikin geisaði árið 1918 hafi tekist að hefta faraldurinn í ákveðnum landshlutum, en hann hafi þó komið þangað síðar með alvarlegum afleiðingum. Það sé því skammgóður vermir að beita samgöngubanni og það verði því ekki gert nú.

Fréttin hefur verið uppfærð.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi