Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fimmtán ár frá mannshvarfi

28.08.2017 - 21:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fimmtán ár eru liðin frá því að ítalski ferðamaðurinn Davide Paita hvarf sporlaust á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfanda. Hann sást síðast á Grenivík og ætlaði þá í tveggja daga göngu út á Látraströnd en kom aldrei til baka. Umfangsmikil leit að manninum bar engan árangur.

 

Davide Paita var 33 ára þegar hann hvarf. Hann ritaði nafn sitt í gestabók í slysavarnaskýli á Látraströnd þann 8. ágúst 2002. Paita hugðist ganga um svæðið og koma til baka eftir 3-4 daga. Hann hafði beðið sundlaugarvörð fyrir hluta af búnaði sínum meðan hann væri í göngunni. Talið er að Paita hafi síðan ætlað að ganga yfir í Keflavík, þekkta gönguleið, og enda förina í Hvalvatnsfirði en grunur leikur á að hann hafi villst af leið á Uxaskarði þar sem varasamt getur verið fyrir ókunnuga að vera. Þegar hann vitjaði ekki búnaðarins á tilsettum síma var lögreglu gert viðvart.  Á annað hundrað björgunarsveitarmenn og þyrla leituðu að honum dögum saman án árangurs. Leitað var frá Grenivík norður fyrir Gjögurtá inn í Hvalvatnsfjörð og strandlengjan fínkembd af sjó og landi. Aðstæður til leitar voru erfiðar þessa daga, torfærar grjótskriður eru á svæðinu og dimm þoka var í 100 metra hæð yfir sjávarmáli og talsverður vindur.

Foreldrar Paita komu til landsins til að kynna sér hvarf hans og ræða við lögreglu á Akureyri og björgunarsveitirnar sem stóðu að leitinni. Eins tóku þau með sér þær föggur sem hann skildi eftir sig.

Skúli Rúnar Árnason var einn þeirra sem stjórnuðu leitinni á sínum tíma.

„Þetta er á þannig stað að það þurfti báta og ýmislegt til þess að ferja mannskap. Þannig að þetta var stórt verkefni. Svo stendur það náttúrulega upp úr að hann er ekki fundinn ennþá. Hann er með dagbók í tjaldi sem hann skilur eftir á Grenivík og það eru þær vísbendingar sem við gengum út frá.“

Þar var líka matur með stutt geymsluþol sem gaf í skyn að hann hygðist snúa fjótt aftur.

„Hann var mjög vel útbúinn og greinilegt á öllu að hann er mjög vanur göngumaður búinn að ferðast mikið og víða. Það er ómögulegt að segja. Það eru ýmsar getgátur um hvað getur mögulega hafa gerst. Hann er með til dæmis lítið kort sem sýnir gönguleiðina og hún er ekki rétt á þessu korti sem vísar honum á bratt og hættulegt svæði. Hann var vanur göngumaður svo það er ómögulegt að segja hvort hann hafi snúið við eða hvað og þá getur verið nánast allt landið undir. Þetta mál kemur mjög oft upp í umræðuna og hefur gert það öll þessi ár síðan maðurinn hvarf. Maður veltir fyrir sér hvað hafi gerst. Það er bara þannig.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV