Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimmta kæran vegna Hvalárvirkjunar

11.07.2019 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Már Björnsson
Náttúruverndarsamtökin Ófeig náttúruvernd hafa kært ákvörðun Árneshrepps um að veita framkvæmdaleyfi fyrir vinnuvegum og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Þetta er fimmta kæran sem berst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í tengslum við virkjunina.

Rök fyrir kæru þau sömu og fyrir fyrri kærum

Ófeig náttúruvernd fer fram á að ákvörðun sveitarfélagsins um að veita leyfið verði felld úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar. Í kæru félagsins segir að landeigendur að Drangavík og fern náttúruverndarsamtök hafi gert sömu kröfur fyrir úrskurðarnefndinni og að rök Ófeigar fyrir kæru séu að öllu leyti þau sömu og fram komi í málsástæðuköflum kæranna tveggja. 

Ný náttúruverndarsamtök

Ófeig náttúruvernd eru náttúruverndarsamtök sem voru stofnuð síðastliðið haust og létu í vetur vinna skýrslu þar sem borin voru saman áhrif af friðlýsingu Drangajökulsvíðerna og virkjunar Hvalár. Stjórnarformaður er Sif Konráðsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra. Hún skrifar undir kæru Ófeigar náttúruverndar sem barst úrskurðarnefndinni í gær.

Fimmta kæran vegna Hvalárvirkjunar

Kæran er sú fimmta sem berst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í tengslum við Hvalárvirkjun en þær hafi snúið að deiliskipulagi og tveimur framkvæmdaleyfum, fyrir vegagerð á Ófeigsfjarðarvegi - og fyrir vinnuvegum og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun.

Framkvæmdir liggja niðri

Úrskurðarnefndin hefur ekki tekið kærurnar fyrir né kröfur um stöðvun framkvæmda meðan á málsmeðferð stendur. Framkvæmdir við vegabætur hafa þó legið niðri síðan í lok júní að beiðni Minjastofnunar vegna rannsókna á fornleifum en málið er í vinnslu hjá stofnuninni.