Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimm vikna bið eftir heimilislækni á Akureyri

Mynd: RÚV / RÚV
Allt að fimm vikna bið er eftir tíma hjá heimilislækni á Heilsugæslunni á Akureyri. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands segir skort á læknum og lélegar starfaðstæður valda því að erfiðlega gengur að stytta biðlista. 

Illa gengur að ráða heimilslækna

Heilsugæslustöðin á Akureyri þjónar að jafnaði um 21 þúsund manns og þar starfa nú átta sérfræðingar í heimilislækningum. Jón Helgi Björnsson, forstjóri stofnunarinnar, segir að heimilislæknar þyrftu að vera 14 til þess að anna eftirspurn. Illa hefur gengið að ráða heimilislækna á Akureyri. 

Þurfa fleiri lækna og betri aðstöðu

 „Já, þetta verður nú viðvarandi viðureign hjá okkur að koma þessu í lag. Lausnin er samt að ráða fleiri lækna en til þess þurfa að vera góðar starfsaðstæður og hluti af vandamálinu okkar á Akureyri hefur verið það að starfsemin er í gömlu húsnæði sem er algjörlega ófullnægjandi aðstaða,“ segir Jón Helgi. 

Tvær nýjar heilsugæslustöðvar í burðarliðnum

Áætlað er að byggja tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri. Starfsemin hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið í miðbænum. Jón segir þarfagreiningu á verkefninu lokið en það er unnið í samvinnu við bæjaryfirvöld og ríkiskaup. 

 „Það er kannski svona langtímalausnin til þess að laða að fólk til starfa hjá okkur. Það er að koma upp almennilegri starfsaðstöðu og menn eru að vinna að því á fullu. Ég held að það séu mjög góðir möguleikar á því að manna heilsugæsluna á Akureyri en þá þurfa menn líka að vera með góðar starfsaðstæður og ég held að það lagist ekki nema menn komist í nýtt og sérhannað húnslæði fyrir heilsugæslu.“