Fimm rómantískar ástarbombur fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Rough Trade - Ah bah d'accord

Fimm rómantískar ástarbombur fyrir helgina

14.02.2020 - 12:50

Höfundar

Þessi fyrirsögn er kannski ekki alveg sönn en með góðum vilja má eflaust greina smá rómantík í einhverju þessara laga sem eru í fimmunni þennan Valentínusardag á viðsjárverðum COVID-19-tímum.

The Strokes - At The Door

New York-sveitin The Strokes er kúl af því hún nær að þrauka áratugum saman á sama útjaskaða rokk-kúlinu sem er einhvers konar kraftaverk. Nú hafa þessir eilífðartöffarar sent frá sér sinn fyrsta söngul í sjö ár, lagið At the Door sem verður að finna á væntanlegri plötu. Gömlu strigaskórnir eru samkvæmir sjálfum sér í nýja laginu og þrátt fyrir að kollvik séu að hækka og belgir að gildna þá svínvirkar þetta nýja trommulausalag og verður bara betra með hverri spilun.


Kate Tempest - Unholy Elixir

Frá sætu og stíliseruðu strákunum í The Strokes förum við yfir í Kate Tempest sem verður að viðurkennast að er oftast algjör haugur. Í hennar tilfelli er það algerlega við hæfi enda upplestrarljóðskáld með hljómsveit í rassvasanum. En yfir í nýja söngulinn Unholy Elexir sem er endurgerð af Holy Elexir sem hefur þróast og þroskast í takt við tónleika skáldsins og rassvasahljómsveitarinnar góðu.


Juniore - Ah Bah D'Accord

Það er langt til Parísar og það tekur langan tíma fyrir tískuna að berast með Norrænu frá Jótlandi til Seyðisfjarðar. En við höfum fengið póst frá stelpunum í Juniore sem hitta algerlega naglan á höfuð í nýja slagararanum Ah bah d'accord sem hljómar eins og hljómsveitin B52s hafi eignast barn með Birgitte Bardot í blakkáti.


The Orielles - Space Samba

Eins og hjá unga fólkinu í Frakklandi er mikil nostalgía í gangi hjá sækadelíupoppogdiskóbandinu The Orielles sem koma frá Englandi. Lagið Space Samba er annar söngull af fyrstu plötu sveitarinnar Disco Volador sem þykir hressandi enda varla annað hægt ef platan þín heitir frisbídiskur.


Sono - Keep Control (ARTBAT Remix)

Eitt af vinsælustu danslögum á klúbbum þessa dagana er tíunda áratugs-neglan Keep Control í endurhljóðblöndun Artbat. Bréfritari er svo heppinn að muna ekkert eftir upprunalegu útgáfu þessa þýska slagara sem skellti sér á topp Billboard Dance-listans árið 2001.


Fimm á föstudegi á Spotify