Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fimm prósent beiðna um áfrýjun samþykkt

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. - Mynd: EPA / KEYSTONE
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í gegnum tíðina samþykkt rúm fimm prósent beiðna um áfrýjun til æðra dómstigs, þar af eru um 2,7 prósent mála þess eðlis að ríki óski áfrýjunar. Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra sagði í gær, eftir að dómur um skipun dómara við Landsrétt lá fyrir, að sá möguleiki yrði skoðaður að íslenska ríkið myndi áfrýja honum til æðra dómstigs mannréttindadómstólsins, (e. Grand Chamber).

Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, að málsmeðferðin geti tekið eitt til eitt og hálft ár. Mikilvægt væri að gefa því gaum hvernig réttarkerfið eigi að starfa á meðan.

Ekki hægt að humma málið fram af sér

„Þetta gengur þannig fyrir sig út í Strassbourg að þessi efri deild, sem getur þá fjallað um málið á ný, það tekur tíma að koma málum þangað fyrir. Mér sýndist á tölum að þeir væru að veita leyfi fyrir svona 5 prósent af þeim málskotsbeiðnum sem fara þangað upp og málsmeðferðin er að taka svona eitt til eitt og hálft ár. Spurningin sem ég er að glíma við sjálfur er hvað á að gera þá á meðan? Á bara að sjá til og dæma málin, eða á að stífla réttarkerfið á meðan eða hvernig á að leysa þetta? Það er það sem allir þurfa að taka mjög alvarlega, þá stöðu, og það er ekkert hægt að humma það neitt fram af sér,“ segir Jóhannes. 

Mynd með færslu
Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður. Mynd:

Íslenska ríkið hefur ekki áfrýjað áður

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði í gær að dómsmálaráðherra hafi sett réttarríkið hér á landi í upplausn. Einnig var rætt við hana í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Í máli hennar kom fram að íslenska ríkið hafi aldrei áður áfrýjað dómi mannréttindadómstóls Evrópu. „Mér finnst varhugavert að íslenska ríkið ætli núna að gera það og halda málinu áfram í óvissu og við vitum jafnvel ekki næsta árið til viðbótar hvort dómarar Landsréttur séu löglegir dómarar eða ekki.“  

Mynd með færslu
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. Mynd: RÚV

Mannréttindadómstóll Evrópu var stofnaður árið 1959 og hefur aðsetur í Strassbourg í Frakklandi. Hlutverk dómstólsins er að tryggja að aðildarríki Evrópuráðsins (e. Council of Europe) virði þau réttindi sem kveðið er á um í mannréttindasáttmála Evrópu.

Æðra dómstigið var stofnað árið 1998. Í skýrslu um starfsemina frá þeim tíma til ársins 2011 segir að á tímabilinu hafi komið 2.129 beiðnir um að það fjalli um mál en að aðeins 5,16 prósent þeirra hafi verið samþykkt. Af þeim beiðnum sem voru samþykktar voru 59 beiðnir frá ríkjum, 2,77 prósent. Forseti og varaforseti mannréttindadómstólsins eiga sæti í æðra dómstiginu, ásamt öðrum dómurum. Engir dómarar sem hafa áður dæmt í viðkomandi máli eiga þar sæti.