Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fimm nefndir og stjórnir með of fáar konur

29.04.2017 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Kjör fimm stjórna af tólf sem Alþingi kaus í vikunni er ekki í samræmi við nýsamþykkta jafnréttisáætlun forsætisráðuneytisins um kynjahlutföll innan þeirra. Þingvallanefnd og stjórn RÚV eru meðal þeirra sem uppfylla ekki ákvæði um jöfn kynjahlutföll í stjórnum og nefndum.

Ný jafnréttisáætlun stjórnarráðsins sem á að gilda til ársins 2020 var birt á vef forsætisráðuneytisins í gær. Þar kemur fram að við skipan í nefndir, ráð og stjórnir, þar á meðal stjórnir hlutafélaga og fyrirtækja sem ríkið eigi meirihluta í, skuli þess gætt að kynjahlutfall sé sem jafnast og að hlutfall hvors kyns sé ekki undir 40% þegar fulltrúarnir eru fleiri en þrír. Þessa áætlun hefði kannski mátt birta fyrr í ljósi þess að þremur dögum áður kusu Alþingismenn í tólf stjórnir og nefndir. Í fimm þeirra var þetta ákvæði ekki virt og í öll skiptin hallaði þar á konur.

Í bankaráð Seðlabankans voru kosnir fimm karlar og tvær konur, konur því tuttugu og níu prósent ráðsmanna. Yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis skipa fjórir karlar og ein kona, og sama á við um yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður - konur eru þá tuttugu prósent stjórnarmanna í þeim báðum.

Þingvallanefnd skipa fimm karlar og tvær konur og í stjórn Ríkisútvarpsins voru kosnir sex karlmenn og þrjár konur, sem voru þar með þriðjungur stjórnar.

Að auki skipaði þingið fimm konur og þrjá karla í Landsdóm en fleiri en Alþingi skipa fulltrúa í þann dóm. 

Hinar sex stjórnirnar sem kosið var í eru í samræmi við jafnréttisáætlunina. Það eru aðrar kjördæmakjörstjórnir, landskjörstjórn og samráðsnefnd um veiðigjöld. Engu að síður er ljóst að aðeins liðlega helmingur þeirra stjórna sem kosið var í voru í samræmi við jafnréttisáætlun stjórnarráðsins.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV