Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimm hjúkrunarfræðingar á gjörgæsludeild smitaðir

08.03.2020 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: Sturla Skúlason Holm
Fimm hjúkrunarfræðingar af gjörgæslu Landspítalans í Fossvogi eru smitaðir af COVID-19 og fimm til viðbótar í sóttkví. Þetta kom fram á blaðamannafundi Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Landlæknis í dag.

„Það er um að ræða tvo einstaklinga sem smituðust í skíðaferð. Annar þeirra kom á eina vakt og þar hafa sennilega orðið til þrjú smit,“ sagði Alma Möller landlæknir. Hún sagði að búið væri að rekja smitin. „Það er ekki vitað til að smit hafi borist í sjúkling og hjúkrunarfræðingurinn sem um ræðir sem kom af skíðum og í vinnu sinnti ekki sjúklingum.“

Alma og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sögðu þetta til marks um að heilbrigðisstarfsfólk þurfi að fara varlega. 

Alma sagði að ein vakt hjúkrunarfræðinga væri í sóttkví. Þegar að þessu kom var búið að skipta deildinni upp með léttum skilvegg. „Að svo stöddu verða áfram opin fjögur rúm. Það er alveg ljóst að þetta mun hafa áhrif á starfsemi deildarinnar.“

Hugsanlega þarf að flytja fleiri sjúklinga á gjörgæsludeildina á Hringbraut. Ef til vill þarf að fresta heilbrigðisþjónustu, svo sem skurðaðgerðum sem geta beðið. Alma lagði þó áherslu á að fólk ætti ekki að neita sér um nauðsynlega þjónustu.

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RUV
Blaðamannafundurinn í heild sinni.