Fimm heit og rök fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Weeknd - Blinding Lights

Fimm heit og rök fyrir helgina

10.01.2020 - 13:09

Höfundar

Veðrið hefur boðið okkur upp á þrjátíu metra á sekúndu, frost og haglél í andlitið allan janúar og þess vegna er dúkað upp með hlýlegri stemmningu í fimm fyrir helgina. Að venju komum við víða við, gefum skít í appelsínugula viðvörun og fáum kanadíska poppsnilld, huggulegheit úr Karabíska hafinu, brasilískt hugarástand og jazz.

The Weeknd – Blinding Lights

Kanadamaðurinn knái Abel Makkonen Tesfaye hefur líst unglingsárum sínum sem kvikmyndinni Kids með öllum eiturlyfjunum en án AIDS. Það virðist ekki hafa skemmt mikið fyrir þessum poppsnillingi því hann hefur varla misstigið sig frá því hann hlóð fyrsta efninu sínu á alnetið árið 2010. Á alnetinu var Pitchfork i banastuði og greip tónlist hans, henti í hæpvélina og gerði hann að einni skærustu stjörnu poppsins.


Skip Marley, H.E.R. – Slow Down

Eins og við vitum eru flestir Jamaíkabúar skyldir Bob Marley, og Skip Marley er einmitt afabarnið hans og Ritu Marley. Hann er sonur frumkvöðulsins og fatahönnuðarins Cedellu Marley og fæddist í Kingston 1996 samkvæmt Jamaíkabúabók. Ef við slítum okkur aðeins frá ættfræðinni er samstarf Skips og H.E.R. ansi rafmagnað og lagið þykir líklegt til vinsælda á heitum og rökum stöðum.


Koffee ft. Gunna – W

Þegar við vorum síðast að spá í hina nítján ára Koffee og hlusta á Toast, fyrir tæpu ári síðan, var hún ein af efnilegri ungu tónlistarmönnum frá Jamaika. Nú er hún búinn að fá tilnefningu til Grammy-verðlauna fyrir bestu reggae-plötuna og er orðinn rosa spaði. Í nýja laginu sínu, W, er hún að vinna með Gunna sem er ekki gaur sem vinnur í Bónus og er úr Bökkunum heldur rappari sem vinnur stundum með Young Thug.


EOB – Brasil

Aðdáendur Radiohead ættu að vera í skýjunum þessa dagana af því nú hafa allir í hljómsveitinni sent frá sér sólóplötur. Sá síðasti í röðinn var Ed O'Brien sem sumir héldu að væri metnaðarlaus rokkauli sem vildi bara gera The Bends aftur og aftur. Þetta hefur nú verið leiðrétt og Ed virðist vera yfir meðallagi ævintýragjarn í lagasmíðum, að minnsta kosti í laginu Brasil, þó hann sé ekki jafn brjálaður og Thom Yorke í teknóinu en það er nú varla hægt að ætlast til þess.


Get the Blessing – Sunwise

Hljómsveitin Get the Blessing fagnar tuttugu ára afmæli um þessar mundir en þeir hafa víst gefið út einar sex jazz-plötur sem skýrir kannski hvers vegna þeir eru ekki vinsælasta hljómsveit í heimi. Þeirra þriðja krydd er að vera magnaðir á tónleikum og splundra hugmyndum fólks um tónlistarstefnur svipað og þeir gera í Sunwise.


Fimm á föstudegi á Spotify