Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fimm fórust í hryðjuverkaárás í Mogadishu

08.03.2019 - 04:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Minnst fimm fórust og nokkrir særðust þegar bílsprengja sprakk utan við veitingastað í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu í gær. Bílnum var lagt við veitingastaðinn, sem er í næsta nágrenni við eftirlitsstöð sem mönnuð er hermönnum úr lífvarðasveit forsetans. Bæði hermenn og almennir borgarar eru á meðal hinna föllnu, að sögn lögreglu í borginni.

Ibrahim Mohamed, lögreglumaður í Mogadishu, staðfesti í samtali við AFP-fréttastofuna að sprengjan hefði verið í bíl nærri vinsæli veitingahúsi í borginni og ekki ýkja fjarri forsetahöllinni. Hryðjuverkasamtökin Al-Shabab hafa þegar lýst illvirkinu á hendur sér og segja árásina hafa beinst að embættismönnum stjórnvalda.

Aðeins er vika síðan bílsprengja sprakk síðast í Mogadishu. Þá létu 29 lífið, flest almennir borgarar. Al-Shabab lýsti því hryðjuverki líka á hendur sér.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir