Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimm drepnir í átökum mótmælenda og lögreglu í Bólivíu

16.11.2019 - 03:10
epa08000834 Bolivian police and army personnel clash with supporters of former President Evo Morales during protests near Cochabamba, Bolivia, 15 November 2019. At least five people were killed and 22 injured during the protests.  EPA-EFE/JORGE ABREGO
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Fimm stuðningsmenn Evos Morales, fyrrverandi Bólivíuforseta, voru drepnir í hörðum átökum mótmælenda og öryggissveita hers og lögreglu í Bólivíu á föstudag. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir fréttaritara sínum sem sá líkin fimm á sjúkrahúsi í borginni.

Átök brutust út í úthverfi borgarinnar Cochabamba þegar lögregla stöðvaði för þúsunda kókabænda, stuðningsmanna Evos Morales sem ætluðu að taka þátt í mótmælum gegn bráðabirgðaforseta landsins í miðborginni. Meinaði lögregla mótmælendunum að fara yfir brú og mislíkaði þeim það mjög. Til stimpinga kom, sem fljótlega þróuðust út í allsherjar óeirðir. Um 100 mótmælendur voru handteknir áður en yfir lauk. Yfirvöld greindu ekki frá neinum dauðsföllum í tengslum við átök dagsins en fjölmiðlar sögðu minnst átta hafa særst.

Lögregla segir að margir í hópi mótmælenda, sem flestir voru kókabændur, hafi verið vopnaðir. „Þeir voru með vopn, byssur, bensínsprengjur, heimagerðar sprengjuvörpur og sprengjur,“ sagði Jamie Zurita, ofursti og yfirmaður lögreglunnar í Cochabamba. „Þeir notuðu dínamít og banvæn vopn á borð við Mauser 765 (riffil). Hvorki herinn né lögreglan eru búin svo öflugum byssum, ég hef áhyggjur af þessu,“ sagði Zurita.

Óeirðalögregla náði að dreifa mannfjöldanum og kveða niður óeirðirnar eftir að dimma tók, með aðstoð hers og þyrlusveitar. 15 hafa nú verið drepin í mótmælum og óeirðum síðustu vikna og yfir 400 særst. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV