Fimm ára fangelsi fyrir að nauðga sambýliskonu

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlmann í dag til fimm ára fangelsisvistar fyrir að nauðga sambýliskonu sinni og beita hana margvíslegu öðru ofbeldi. Hann var að auki dæmdur til að greiða konunni þrjár milljónir króna í miskabætur. Maðurinn á langan sakaferil að baki og hlaut sinn fyrsta dóm árið 2004. Hann hefur ítrekað fengið óskilorðsbundna fangelsisdóma meðal annars fyrir líkamsárásir og önnur brot sem tengjast vísvitandi ofbeldi.

Fólkið bjó í búsetuúrræði úti á Granda í Reykjavík þegar brotin áttu sér stað. Maðurinn braut gegn konunni, bæði í íbúðargámi þeirra og í öðrum íbúðargámi þar sem konan leitaði skjóls. 

Maðurinn neitaði sök og hélt því fram að hugsanlega hefði einhver annar maður brotið á konunni á öðrum stað og tíma. Framburður konunnar þótti hins vegar stöðugur, skýr og einlægur. Að auki fékk framburður hennar stoð í öðrum gögnum málsins. Framburður mannsins þótti ekki trúverðugur.

Maðurinn var sakfelldur fyrir margvíslegt ofbeldi og hótanir gagnvart konunni auk nauðgunar. Brotin höfðu mikil andleg og líkamleg áhrif á konuna. Sérstaklega er tekið til þess í dómnum að maðurinn braut gegn konunni í nánu sambandi þar sem hún átti að vera örugg. Þetta auk sakaferils mannsins var metið til refsiþyngingar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi