Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fíkn í að fá fólk til að hlæja

Mynd: RÚV / RÚV

Fíkn í að fá fólk til að hlæja

03.10.2019 - 11:26

Höfundar

„Það var enginn byrjaður að skrifa ævisöguna mína svo ég ákvað að segja hana bara sjálfur,“ segir Pétur Jóhann Sigfússon, sem ætlar að rekja ævi sína í uppistandssýningunni Pétur Jóhann í 20 ár í Eldborg í næsta mánuði.

Tilefni sýningarinnar er að í ár eru liðin slétt 20 ár síðan Pétur Jóhann fór með sigur af hólmi í keppninni Fyndnasti maður Íslands. En þótt hann standi á tvítugu sem atvinnumaður í gríni byrjaði horfir hann mun lengra aftur í sýningunni. 

Man eftir fyrsta „uppistandinu“

„Ég var byrjaður að fíflast og grínast miklu fyrr, í rauninni búinn að vera að gera það alla ævi. Ég man fyrsta skiptið þegar ég kom fullorðnu fólki til að hlæja og tilfinninguna sem ég fékk þá. Það er hægt að líkja þessu við eins konar fíkn. Ég byrjaði mjög snemma að geta flautað mjög skært,“ segir hann og rifjar upp þegar hann hermdi svo vel eftir fugli í fylgd með ömmu sinni og frænku að amma hans hélt að það væri fugl inni í húsinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Pétur Jóhann hefur komið víða við á löngum grínferli.

„Síðan hlógu þær rosa mikið og það fannst mér mögnuð tilfinning. Og ég er bara að búinn að vera að leita að þessari tilfinningu allar götur síðan.“ Pétur segir allt undir á sýningunni, þar sem hann líti yfir farinn veg og drepi á bæði há- og lágpunkta.  „Og það er fullt af lágpunktum þarna. Þetta gæti verið einhvers konar uppgjör. En svo verður þetta bara létt og skemmtilegt. Það er heili tilgangurinn með þessu að fá fólk til að gleyma stað og stund og hlæja svolítið.“ 

Kærur komið inn á borð

Aðspurður segist Pétur ekki setja sig í ákveðnar stellingar þegar hann setur saman efni sitt. „Það er lífrænna. Stundum gerist þetta bara í bílnum á leiðinni. Þegar ég var að vinna með Dodda litla til dæmis í mörg ár í útvarpi og oftast þegar ég var á leiðinni þangað, í útvarpið, þá datt mér eitthvað í hug.“

Hann segist af og til hafa lent í klandri vegna grínsins. „Jú jú, sérstaklega man ég eftir að í útvarpinu komu kærur inn á borð. En ekki til okkar. Það var bara einhver yfirmaður sem kom og sagði: „Frábært hjá ykkur, það var að koma kæra.“ En svo veit ég aldrei hvar það endaði eða hvernig. Það er það góða við að vinna í fjölmiðlum. Það er alltaf einhver annar sem lagar þetta fyrir þig. Oftast.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Pétur Jóhann segir engan hörgul á lágpunktum á ferlinum.

 

Þegar kemur að uppistandi segist Pétur finna sterkust viðbrögð við því gríni sem spunnið er af fingrum fram í augnablikinu. „Það er þegar eitthvað verður til hjá staðnum og fólk finnur það. Það er þegar einhver kallar eða frammíköll og ég finn að það skapar skemmtilegustu viðbrögðin af því þegar áhorfendur vita að það sem ég er að tala um er bara að gerast þarna, það er alltaf þakklátast.“

Á ferilinn slembilukku að þakka 

Þetta er langstærsti viðburður þar sem Pétur Jóhann hefur komið einn fram. „Þetta er svolítið út úr karakter fyrir mig að ákveða og fara af stað sjálfur með svona sýningu. Ég á mjög sjaldan frumkvæði að einhverju. Ég er búinn að vera að horfa til baka og spá í ferilinn og nánast ekkert af því sem ég hef gert er að eigin frumkvæði. Þetta er allt svona slembilukka sem gerir að verkum að ég hef dottið inn í nánast allt.“

Hann segir það hafa verið áskorun að koma frásögn af heilli ævi fyrir á einu kvöldi. „Það væri geggjað ef ég fengi fjóra tíma í þetta. En ég hef það ekki. Þetta eru tveir tíma með hléi. Ég mun taka hápunkta og lágpunkta, það er fullt af lágpunktum þarna. Þetta gæti verið einhvers konar uppgjör. En svo verður þetta bara létt og skemmtilegt. Það er heili tilgangurinn með þessu að fá fólk til að gleyma stað og stund og hlæja svolítið.“  

Rætt var við Pétur Jóhann í Menningunni. Horfa má á viðtalið hér að ofan.

 

Tengdar fréttir

Uppistand um árin sem hann var alltaf freðinn

Menningarefni

Geðveiki er gróðrarstía fyrir brandara

Menningarefni

„Haha, ég er með krabbamein“

Menningarefni

Ari Eldjárn kominn á kortið í Bretlandi