Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

FIFA leitar liðsinnis mannréttindasamtaka

Mynd með færslu
 Mynd:

FIFA leitar liðsinnis mannréttindasamtaka

28.04.2019 - 07:39
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, ætlar að leita til mannréttindasamtaka áður en ákvörðun verður tekin um að fjölga liðum í heimsmeistaramótinu í Katar árið 2022. FIFA telur nauðsynlegt að í það minnsta eitt nágrannaríki Katars verði gestgjafi mótsins.

Átta leikvangar eru í smíðum í Katar, þar sem gert er ráð fyrir að 32 þjóðir mæti til leiks líkt og á síðustu heimsmeistaramótum. Gianni Infantino, forseti FIFA, vonast hins vegar til að tillaga um að fjölga þjóðum úr 32 í 48 nái í gegn á ársþingi FIFA í júní. Al Jazeera segir að samkvæmt áætlun FIFA sé gert ráð fyrir minnst tveimur leikvöngum til viðbótar þar sem leikjafjöldinn fer úr 64 upp í 80 leiki á mótinu með fjölguninni.

Áður en lengra verður haldið vill FIFA leita ráða hjá mannréttindasamtökum. Fatma Samoura, aðalritari FIFA, sendi Amnesty International og fleiri samtökum bréf í gær þar sem óskað er eftir samstarfi. Samoura segir í bréfinu að ákveðnir áhættuþættir varðandi mannréttindamál gætu komið upp og því vilji sambandið leita liðsinnis Amnesty og annarra við að ráða fram úr því.

FIFA segist vinna náið með Katar að möguleikanum um að fjölga þjóðum í 48. Staðan í Miðausturlöndum er hins vegar flókin sem stendur, því mörg nágrannaríki hafa lagt viðskiptabann á Katar. Kúveit og Óman eiga enn í viðskiptasambandi við Katar, en stjórnvöld í Óman segjast ekki spennt fyrir þátttöku. Þjóðarleikvangurinn í Kúveit tekur 60 þúsund manns í sæti, en næst stærsti völlur landsins tekur aðeins 26 þúsund og þarf á endurbótum að halda. 

Sádi Arabía, Barein og Sameinuðu Arabísku Furstadæmin lögðu hins vegar stjórnmála-, viðskipta- og samgöngubann á Katar í júní 2017 og stendur það enn. Katarskir ríkisborgarar fá ekki inngöngu í ríkin, og fyrr á þessu ári var breskum ríkisborgara stungið í steininn í Furstadæmunum þar sem hann fékk hvorki vott né þurrt fyrir að hafa klæðst landsliðstreyju Katars á leik í Asíubikarnum. Samkennd með Katar er refsiverð í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum, og geta þeir sem sýna hana átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi.

Amnesty hefur skrifað fjölda skýrsla um réttindi verkamanna sem reisa leikvangana í Katar. Vinnuaðstæður þeirra eru bágar, launin lág og réttindi þeirra nánast engin. Fjöldi hefur látið lífið við vinnuna.

Tengdar fréttir

Fótbolti

48 lið á HM í Katar?

Fótbolti

Endurnýtanlegur leikvangur á HM í Katar

HM

8 milljarðar á dag í uppbyggingu fyrir HM