Ferskur en kunnuglegur blær í íslenska indí-landslagið

Mynd: Magnús Thorlacius / Magnús Thorlacius

Ferskur en kunnuglegur blær í íslenska indí-landslagið

10.01.2020 - 13:40

Höfundar

Magnús Thorlacius, sem áður fór fyrir hljómsveitinni Vio, kemur nú fram undir nýju nafni og í þetta sinn er hann einn á ferð. Magnús kom við í Popplandi, frumflutti lag og sagði frá væntanlegum ævintýrum sínum.

Magnús Thorlacius skaust fram á sjónarsviðið fyrir sex árum með indírokkhljómsveitinni Vio. Fjórum vikum eftir að hljómsveitin var stofnuð unnu þeir Músíktilraunir og Magnús var að auki verðlaunaður sem besti söngvarinn. Vio var tilnefnd sem nýliði ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum sama ár, eftir að fyrsta smáskífa þeirra, You Lost It, náði flugi í íslensku útvarpi. Hljómsveitin sendi frá sér sína fystu plötu, Dive In, sem var tilnefnd sem rokkplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2015 og vinnur nú um þessar mundir að endurkomuplötu.

Nú hefur Magnús hins vegar opinberað sig sem Myrkvi og stefnir að því að kynna íslenska indítónlist fyrir heiminum á árinu. Hann ætlaði upprunalega að koma fram undir skírnarnafni sínu en Magnús á frænda sem ber sama nafn og starfar einnig við í tónlist sem hefði flækt málið. Því var orðabókin dregin upp og listamannsnafnið fundið í M-kaflanum.

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Thorlacius

Fyrsta smáskífan var frumflutt í Popplandi í dag. Lagið heitir Sér um sig og fjallar um straumana sem fylgja því að kynnast manneskju og fylgja þeim eftir áður en það er um seinan. En fram undan eru fleiri smáskífur frá Myrkva og plötuútgáfa sem verður væntanlega fylgt eftir með tónleikahaldi. 

Sér um sig er lag sem bætir ferskum en þó kunnuglegum blæ við íslenska indí-landslagið. Það er nú aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum.