Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ferlið vonandi á lokastigi, segir Bucheit

09.12.2014 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Ferlið við að afnema gjaldeyrishöftin er vonandi á lokastigi, segir Lee Bucheit, einn af ráðgjöfum stjórnvalda. Ráðgjafarnir funduðu í dag með slitastjórnum föllnu bankanna þar sem þær lýstu skoðunum sínum til afnáms hafta.

Ráðgjafahópur stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta hitti slitastjórnir föllnu bankanna, allar þrjár á sama fundi í fyrsta skipti á Grand hótel í dag.  

Lee Bucheit talsmaður hópsins segir að tillögur stjórnvalda séu nærri fullmótaðar.  „Hugleiðingar og rannsóknir á þessu efni eru langt á veg komnar en það væri vanhugsað að fullklára tillögur um haftaafnám án þess að gefa fólki færi á að tjá sín sjónarmið. Munið að þessi gjaldeyrishöft hafa áhrif á marga aðra á Íslandi en aðeins slitastjórnirnar. Ráðgjafahópurinn hefur rætt við og á eftir að ræða við aðra hagsmunaðila til að heyra sjónarmið þeirra á sama hátt,“ segir Bucheit.

Það eru til dæmis fundir með fulltrúum samtaka,  lífeyrissjóða, launþega og atvinnulífsins og alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Heimildir fréttastofu herma að búið sé að smíða drög að frumvarpi um útgönguskatt sem lagður yrði á alla þá sem fara vilja með fé úr landi.  

Rætt er um ýmsar útfærslur, meðal annars að skatturinn leggist ekki á, af fullum þunga fyrr en ákveðnum fjárhæðum er náð, og hafi því minni áhrif á almenning. Þá hafi sú hugmynd verið viðruð að eigendur aflandskróna skipti þeim í skuldabréf til 30 ára.  Bucheit vildi ekkert segja um tillögur stjórnvalda.  „Þessi fundur er hugsaður til að þiggja ráð frekar en að gefa þau,“ svarar Bucheit og vildi ekkert tjá sig um svokallaðan útgönguskatt.

Bucheit segist bjartsýnn á að hægt verði að stíga stór skref í afnámi hafta fljótlega. „Stjórnvöld hafa sagt að þau vilji gera eitthvað snemma á næsta ári og ég tel það raunhæft.“

Heimildir fréttastofu herma að frumvarp um útgönguskatt kunni að vera lagt fyrir þingið fyrir jól.   Bucheit segir að margir fundir séu framundan. „Ferlið vonandi að nálgast endapunktinn.“