Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ferðir til og frá Kanaríeyjum á áætlun

14.03.2020 - 23:14
Flugvöllur á Kanaríeyjum
 Mynd: Wikimedia Commons
Ferðaskrifstofan Vita hefur sent farþegum á sínum vegum á Kanaríeyjum tilkynningu um að flugferðir hennar séu enn á áætlun. Íslensk stjórnvöld hvöttu Íslendinga erlendis til að flýta heimferð, og verða allir þeir sem koma frá Kanaríeyjum að fara í 14 daga sóttkví við heimkomuna. 

Spænsk stjórnvöld greindu frá því í kvöld að allar verslanir og þjónusta verði lokaðar í fimmtán daga, nema matvöru- og lyfjaverslanir. Fólki verður alfarið bannað að yfirgefa heimili sín nema til þess að fara til vinnu, sækja heilbrigðisþjónustu, fara í apótek eða versla í matinn. Yfir 1.500 ný tilfelli COVID-19 greindust á Spáni í dag, og eru þau nú samanlagt orðin nærri 5.800. 183 hafa látið lifið af völdum sjúkdómsins á Spáni.

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, sagði í sjónvarpsávarpi í kvöld að aðgerðirnar væru vissulega róttækar og ættu óhjákvæmilega eftir að hafa áhrif. Lögregla verður á varðbergi til þess að gæta að því að reglum stjórnvalda verði framfylgt. Sanchez sagði Spánverja eiga eftir að vinna stríðið gegn kórónaveirunni, en það sé mikilvægt að fórnarkostnaðurinn verði sem allra minnstur.