
Ferðir hundraða milljóna takmarkaðar
Stjórnvöld í Kína reyna hvað þau geta að stöðva útbreiðslu veirunnar þar sem hún getur valdið alvarlegum veikindum í öndunarfærum. Samkvæmt samantekt CNN sjónvarpsfréttastofunnar bandarísku beinast aðgerðirnar einkum að nokkrum héruðum í Kína, svo sem Hubei og Liaoning og stærstu borgum landsins, Shanghai og Peking. Þá hafa ferðir til og frá borgunum Wuhan, Huanggang, Shiyan og Xiaogan í Hubei verið stöðvaðar með öllu. Þar sem skólum hefur verið lokað er byrjað að kenna börnum á grunnskólaaldri í sjónvarpi. Verið er að setja upp tölvuský til að sinna uppfræðslu enn frekar.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum í Kína hefur COVID-19 kórónaveiran dregið 1770 til bana, einkum aldraða og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Hundrað dauðsföll voru tilkynnt síðastliðinn sólarhring í Hubei héraði. Yfir sjötíu og eitt þúsund hafa sýkst af veirunni, langflestir á meginlandi Kína. Fjölmörgum viðburðum hefur verið aflýst í Kína og víðar til að hefta útbreiðslu veirunnar.