Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ferðir hundraða milljóna takmarkaðar

17.02.2020 - 17:42
epa08223650 A man wearing a protective mask rides a bicycle with his children in Guangzhou, China, 17 February 2020. The disease caused by the novel coronavirus (SARS-CoV-2) has been officially named Covid-19 by the World Health Organization (WHO). The outbreak, which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 1,776 people and infected over 71,000 others worldwide, mostly in China.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ferðafrelsi 780 milljóna Kínverja, hátt í hálfrar þjóðarinnar, hefur verið skert að einhverju leyti vegna COVID-19 kórónaveirunnar sem hefur orðið á átjánda hundrað manns að bana. Íbúar nokkurra borga á meginlandinu eru í algjöru ferðabanni.

Stjórnvöld í Kína reyna hvað þau geta að stöðva útbreiðslu veirunnar þar sem hún getur valdið alvarlegum veikindum í öndunarfærum. Samkvæmt samantekt CNN sjónvarpsfréttastofunnar bandarísku beinast aðgerðirnar einkum að nokkrum héruðum í Kína, svo sem Hubei og Liaoning og stærstu borgum landsins, Shanghai og Peking. Þá hafa ferðir til og frá borgunum Wuhan, Huanggang, Shiyan og Xiaogan í Hubei verið stöðvaðar með öllu. Þar sem skólum hefur verið lokað er byrjað að kenna börnum á grunnskólaaldri í sjónvarpi. Verið er að setja upp tölvuský til að sinna uppfræðslu enn frekar.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum í Kína hefur COVID-19 kórónaveiran dregið 1770 til bana, einkum aldraða og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Hundrað dauðsföll voru tilkynnt síðastliðinn sólarhring í Hubei héraði. Yfir sjötíu og eitt þúsund hafa sýkst af veirunni, langflestir á meginlandi Kína. Fjölmörgum viðburðum hefur verið aflýst í Kína og víðar til að hefta útbreiðslu veirunnar.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV