Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ferðaþjónustusamtök á móti náttúrupassa

25.11.2014 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Samtök helstu ferðaþjónustuaðila leggjast gegn hugmyndum um sölu á náttúrupassa til ferðamanna. Rúmt ár er síðan iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti áform um að koma slíkri gjaldtöku á.

Innan Samtaka ferðaþjónustunnar eru öll stærstu fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi. Flugfélög, hótel- og veitingastaðir, bílaleigur og þeir sem selja skipulagðar ferðir. Samtökin funduðu í gær og samkvæmt heimildum fréttastofu var þar kynnt sú sameiginlega afstaða ferðaþjónustunnar að fallið verði frá hugmyndum um svokallaðan náttúrupassa. Samtökin hyggjast þrýsta á ráðherra að fara aðrar leiðir til tekjuöflunar, og leggja til hækkun á gistináttaskatti, sem tæki gildi 1. janúar 2016, og gæti skilað hátt í milljarði króna árlega. Fyrirtækjum í ferðaþjónustu hugnast illa að bæta við nýju gjaldi á ferðamenn, slík innheimta og eftirlit með henni geti haft neikvæð áhrif.

Langvinn deila

Deilan um hvernig standa skuli að gjaldtöku ferðamanna hefur staðið lengi. Þannig lögðu samtök ferðaþjónustunnar sjálf til í mars í fyrra að tekinn yrði upp náttúrupassi til að standa straum af ágangi ferðamanna. Flestir eru sammála um að afla þurfi fjármuna með einhverjum hætti.

Fyrir rétt rúmu ári tilkynnti ráðherra formlega áform um að setja á fót samráðshóp helstu hagsmunaaðila til að útfæra hugmyndir um náttúrupassa. Þeirri vinnu átti að ljúka í lok árs 2013 og í framhaldinu yrði lagt fram frumvarp á Alþingi í byrjun þessa árs. Vinna við frumvarpið dróst, meðal annars vegna andstöðu hagsmunaaðila. 

Landeigendur við Geysi hófu eigin gjaldtöku í byrjun mars á þessu ári, og við það tækifæri sagði iðnaðarráðherra ekki útilokað að fallist yrði á gjaldheimtu á fleiri ferðamannastöðum, þar til náttúrupassinn tæki gildi. Þá stefndi hún á að leggja fram frumvarp um passann á vorþingi. Ekkert bólar enn á því frumvarpi, en það er á lista yfir verkefni ráðherrans núna á haustþinginu. Hún hefur ítrekað lýst yfir að víðtæk sátt þurfi að ríkja um hvernig staðið verði að málinu. Andstaða Samtaka ferðaþjónustunnar nú setur frumvarpið enn í uppnám.  

[email protected]