Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ferðaþjónustufyrirtæki búa sig undir samdrátt

11.06.2019 - 08:25
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi grípa til róttækra aðgerða til að mæta samdrætti. Forstjóri Bílaleigu Akureyrar segir að hagræðing sé nauðsynleg en fækkun ferðamanna hafi ekki endilega í för með sér rekstrarvandræði.

Spáð hefur verið mikilli fækkun ferðamanna í sumar og haust, ekki síst vegna skerts framboðs á flugsætum hingað til lands. Samkvæmt Ferðamálastofu fækkaði brottförum erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll um fjórðung í maí. Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri telur að samdrátturinn komi verst niður á landsbyggðinni og flestir sem fréttastofa ræddi við og þekkja til taka undir það. 

Færri gestir, en auknar tekjur

Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, sem er stjórnarformaður Jarðbaðanna í Mývatnssveit, segir þó að sumarið líti ágætlega út og mun betur en haustið og næsti vetur. „Hér mun ferðamönnum fækka í ár, en þetta snýst ekki allt um fjölda, heldur líka og miklu meira um hvað þeir skilja eftir sig. Við sjáum það, bæði í mínum rekstri og í rekstri í kringum okkur sem ég þekki til að við erum að fá færri gesti, tek Jarðböðin sem dæmi, en auknar tekjur,“ segir Steingrímur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Steingrímur Birgisson

Krónan hafi veikst aðeins sem hafi víða meiri áhrif á reksturinn en fall Wow air. „Þeir farþegar voru held ég meira að ferðast um Suðurlandið og Suðvesturlandið og komu minna hingað norður,“ segir Steingrímur. 

Ívið meiri samdráttur en í fyrra

Hjá mörgum fyrirtækjum á Norðurlandi kom stóri skellurinn í fyrra, þegar mikið var um afbókanir. Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Selvíkur sem rekur Sigló hótel, segir að eftir góðan vetur stefni nú í enn meiri samdrátt. „Segjum að það sé 10-20% samdráttur í komum ferðamanna þá eru áhrifin mun meiri hér úti á landi af því að þau stytta ferðirnar, halda sig á suðvesturhorninu,“ segir Kristbjörg. 

Fresta frekari uppbyggingu á Siglufirði

Ástæðan sé hátt verðlag á Íslandi, en þau hafi brugðist við með verðlækkunum. „Við höfum dregið verulega úr kostnaði og farið í miklar hagræðingaraðgerðir núna í vetur. Við erum með töluvert minna af starfsfólki en verið hefur. Eins fjárfestingar sem við stefndum að og vorum byrjuð að undirbúa, frekari uppbyggingu hérna á Siglufirði, það var allt sett á hold,“ segir Kristbjörg. 

Stærri fyrirtækin í betri stöðu

Steingrímur telur að margir séu betur í stakk búnir til að mæta erfiðleikum en í fyrra. „Auðvitað misjafnlega. Stærri fyrirtækin eiga kannski auðveldara með að takast á við þessa erfiðleika heldur en þau smærri og það þarf alls ekki að vera slæmt, það þýðir hagræðingu í kerfinu sem var nauðsynleg,“ segir Steingrímur. 

Kristbjörg segir lykilatriði að reksturinn sé óskuldsettur, en mörg fyrirtæki séu í verri stöðu. „Ég byði ekki í það ef við værum líka skuldsett, þannig að ég held þetta sé ansi erfitt fyrir mjög marga núna,“ segir Kristbjörg.

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV