„Ferðaskrifstofa“ bráðamóttökunnar

18.03.2016 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: BB - RÚV
Starfsfólk bráðamóttöku Landspítalans þarf í auknum mæli að sinna bókunum á hótelum og flugferðum vegna erlendra ferðamanna sem koma á deildina. Sérfræðingur í bráðahjúkrun segir að starfsfólkið vilji frekar sinna sjúkum og veikum betur og aðrir sæju um þessa þætti, eins og þekkist í öðrum löndum.

Ferðamenn streyma til landsins sem aldrei fyrr og spáð er að þeir verði hátt í tvær milljónir á þessu ári. Eins og verða vill veikjast eða slasast einhverjir þeirra og fara flestir á bráðamóttöku Landspítalans.  Guðbjörg Pálsdóttir sérfræðingur í bráðahjúkrun segir að starfsfólkið finni þetta. Ýmis konar aðstæður geta komið upp og nefnir hún sem dæmi eldri hjón sem koma til landsins með skemmtiferðaskipi, annað þeirra slasast eða veikist, og skipið sem stoppar stutt fer án þeirra.

„Og það er einmitt starfsfólkið hér sem fer í að opnahér, eins og við segjum stundum, litla „ferðaskrifstofu". Hér leggjast allir á eitt, hjúkrunarfræðingarnir fara ásamt riturunum í að athuga með hótel, það þarf að breyta flugi. Það getur verið þegar um mjög alvarlega atburði er að ræða eins og dauðsföll eða mjög alvarleg slys að við þurfum að blanda sendiráðunum inn í málin. Við þurfum að leysa öll þessi mál.“ segir Guðbjörg. 

Hún segir að útbúa þurfi læknabréf á ensku, setja röntgenmyndir á diska og útvega túlka og fleira. Ef viðkomandi hefur legið á sjúkrahúsi  innan við sex mánuðum áður, þarf sá hinn sami að fara í einangrun, sem er mikið mál. Hún segir því miklu meira  mál að hugsa um erlendan ferðamann en íslenskan með sambærilegt vandamál. 

„Auðvitað myndum við vilja nota tímann í að sinna einhverjum öðrum eða sinna einstaklingnum betur og það væri annað fólk í þessu, eins og við þekkjum úti í heimi. Á spítölum þar og  bráðamóttöku er jafnvel starfandi félagsráðgjafi sem sér um þetta og er í fullri vinnu við þetta. Auðvitað væri það langbest,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir.
 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi