Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ferðamönnum fjölgar en færri gista í Airbnb

25.09.2018 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Mun færri ferðamenn gista í Airbnb íbúðum hér á landi nú en í fyrra. Þetta kemur fram í ferðaþjónustuúttekt greiningardeildar Arion banka. Deildin spáir fjölgun ferðamanna hingað til lands á næstu árum.

Greiningardeildin kynnti í morgun árlega ferðaþjónustuúttekt sína. Þar kom meðal annars fram að deildin gerir ráð fyrir því að ferðamönnum fjölgi um 1,4% á næsta ári og 2,4% árið 2020. Þá skipti neysluhegðun ferðamanna stöðugt meira máli, þar sem ekki sé hægt að treysta á tekjuvöxt í gegnum aukinn fjölda ferðamanna. Erna Björg Sverrisdóttir, sérfræðingur í greiningardeild bankans, segir að vísbendingar séu um að sterk staða krónunnar hafi haft þau áhrif að ferðamenn dvelji stöðugt skemur hér á landi. 

„Það er hins vegar jákvætt, ef við ætlum að horfa á ljósu punktana í þessu öllu saman, að ef við horfum á eyðslu hvers ferðamanns í evrum talið, þá er hver ferðamaður að eyða meira en hann gerði áður. Þannig að það virðist að einhverju leyti benda til þess að okkur hafi tekist að ná í þessa vinsælu og eftirsóknarverðu betur borgandi ferðamenn,“ segir Erna.

Heilt yfir, hver er ykkar spá um ferðamannaiðnaðinn á næstu árum hér á landi?

„Við erum ennþá að horfa fram á áframhaldandi vöxt í komu ferðamanna. En óvissan er orðin miklu meira niður á við. Við höfum búið í þessari bjartsýnu sviðsmynd, þetta hefur alltaf farið fram úr öllum væntingum. En nú er veruleikinn annar og við getum ekki, eins og við höfum gert undanfarin ár, treyst á að tekjuvöxturinn komi í gengum aukinn fjölda ferðamanna. Það er bara farið að hægja það mikið á vextinum á komum til landsins.“

Bjart framundan

Þorsteinn Andri Haraldsson, sérfræðingur í greiningardeild bankans, fjallaði um stöðu á hótelmarkaðnum í erindi sínu í morgun. Þar kom meðal annars fram að gistinóttum í Airbnb íbúðum á höfuðborgarsvæðinu hafi fækkað um 20% frá því á sama tíma í fyrra. Framboðið hefur einnig dregist verulega saman.

„Við erum að sjá nokkuð athyglisverða þróun þar, við erum að sjá framboðið dragast verulega saman á milli ára. Og þetta er í fyrsta sinn sem við fáum gögn frá Airbnb þar sem við sjáum framboðið vera að dragast saman. Sömuleiðis sjáum við þetta gerast í gistinóttum, þeim er að fækka mun hraðar heldur en til að mynda á hótelum og það er að fækka mun hraðar en ferðamönnum er að fækka til að mynda í ágúst og maí. Þetta gefur okkur vísbendingar um að annað hvort sé fólk að fara út úr deiliþjónustunni vegna þess að það er verið að herða regluverk eða vegna þess að það sé orðin meiri samkeppni við hótelin, eða þá að rekstraraðstæðurnar eru orðnar erfiðari eins og hjá hótelunum. Þetta er breytingin sem við erum að sjá framan af ári.“

Hverju spáið þið um framhaldið á hótelmarkaði?

„Við reiknum með því að markaðurinn sé að ná nýju jafnvægi sem gæti gengið til lengri tíma, þar sem framboð og eftirspurn eru að mætast í betri mæli en verið hefur áður.“

Þannig að það er sæmilega bjart framundan á hótelmarkaði á Íslandi?

„Já ég myndi segja það en haldi dvalartími ferðamanna áfram að styttast getur myndin breyst hratt,“ segir Þorsteinn.