Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ferðamenn virða ekki lokun við Gullfoss

13.02.2016 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Kristjánsson - RÚV
„Svona er þetta alla daga, alltaf,“ segir Magnús Kristjánsson, leiðsögumaður, um ferðamenn sem virða að vettugi lokanir við Gullfoss. Stígurinn að fossinum er lokaður með rammgerðu keðjuhliði vegna mikillar hálku en það stöðvar ferðamenn ekki í að ganga stíginn og að fossinum.

„Það er erfitt að útskýra fyrir fólkinu sem ég er með af hverju þau mega ekki fara að fossinum þegar þau sjá margmenni fara þarna inn fyrir. Þetta er búið að vera svona lengi og það er ekkert gert í þessu,“ segir Magnús. Aðspurður segir hann líklegt að um farðþega frá rútufyrirtæki að ræða en enginn leiðsögumaður hafi verið sjáanlegur.

Í gær var greint frá því að illa hefði gengið að fá ferðamenn til að fara að fyrirmælum við Reynisfjöru. Þar er lögregla nú með neyðarvakt eftir að kínverskur ferðamaður lést þar af slysförum. Þrátt fyrir vakt lögreglu og leiðsögumanna voru þrír ferðamenn hætt komnir í fjörunni í gær og lentu í sjálfheldu.

Uppfært 17.54: RÚV sagði einnig fréttir af því á síðasta ári að ferðamenn virtu ekki lokun við Gullfoss og sumir hverjir hefðu verið í stórhættu. Það hefur því lítið breyst á þeim tíma.