Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Ferðamenn vaða oft út í ótrúlegustu vitleysu“

11.12.2015 - 13:59
Fastur bíll á Uxahryggjum
Björgunarsveitarfólk aðstoðar vegfarendur í nóvember 2015. Mynd: Þór Þorsteinsson - Björgunarsveitin Ok
Lögreglunni í Borgarnesi bárust tvær tilkynningar í gær um ferðamenn sem höfðu fest bíla sína á Uxahryggjavegi. Í fyrra tilfellinu höfðu ferðamenn fest Toyota Yaris á veginum, en hann er kirfilega merktur ófær.

Björgunarsveitin Ok í Borgarfirði var kölluð til sem aðstoðaði ferðalangana. Lögreglu barst tilkynning vegna málsins um hádegisbilið í gær.

Nokkrum klukkustundum síðar, eða um kvöldmatarleytið, barst lögreglu svo aftur tilkynning um ferðamenn sem höfðu fest bíl af gerðinni Renault Kangoo á sama vegi. Þeir upplýstu lögreglu um að allt væri með felldu og þeir væru með nóg eldsneyti og birgðir. Íbúi í Skorradal kom þeim síðar til aðstoðar, þannig að björgunarsveitarmenn voru ekki kallaðir til.

Leyfilegt að aka ófæra vegi

Vegagerðin hefur sett upp skilti við báða enda Uxahryggjavegar þar sem fram koma upplýsingar, á íslensku og ensku, um að vegurinn sé ófær. Þar er búkki á veginum, sem aka þarf fyrir til að komast leiðar sinnar. Leyfilegt er að aka ófæra vegi, en beinlínis lögbrot þegar þeim hefur verið lokað, sem var ekki tilfellið að þessu sinni.

„Það virðist greinilega vera mjög erfitt að koma upplýsingum til ferðamanna, þeir vaða oft út í ótrúlegustu vitleysu og jafnvel með lítl börn með sér,“ segir Þór Þorsteinsson, formaður Björgunarsveitarinnar Oks. „Ég óskaði eftir því við Vegagerðina í morgun að vegurinn yfir Uxahryggi verði lokaður með keðjum, en það má skiljanlega ekki vegna slysahættu.“

Þór segir verkefni björgunarsveitarinnar vegna ferðamanna á smábílum að vetrarlagi, hafa færst í vöxt samhliða sprengingu í komum erlendra ferðamanna til landsins. Hann segir að björgunarsveitin hafi verið kölluð út átta sinnum á viku á tímabili.

„Það er ábyrgðarhluti að senda ferðamenn út á landsbyggðina á Yaris, og oft og tíðum hafa þeir meira að segja ekki hugmynd um hvar þeir eru staddir á landinu,“ segir Þór.

 

 

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV