Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ferðamenn skáru lamb á háls við Breiðdalsvík

03.07.2017 - 10:20
Mynd með færslu
Myndin er úr safni. Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Erlendir ferðamenn, sem áttu leið um Breiðdalsvík í gærkvöld, tóku upp á því að eltast við lamb og skáru það á háls þegar þeir náðu því. Ferðamennirnir, níu karlmenn, sögðust hafa ætlað að lina þjáningar lambsins en einn þeirra var bæði kærður og sektaður fyrir athæfið.

Björgvin Gunnarsson, bóndi á Núpi í Berufirði, var í matarboði á Breiðdalsvík í gærkvöld þegar hann fékk símtal frá dóttur sinni um að útlendingar væru að eltast við lömb sunnan við Breiðdalsvík, ekki langt frá Kleifarétt. Frændi hans og önnur dóttir fóru að kanna málið. „Þá var leikurinn búinn að berast þarna í áttina að Breiðdalsvík og búið að króa þá lamb af þar við sjó og á sem þar rennur til sjávar. Þá hringdu þau í okkur yfir á Breiðdalsvík og lögreglumann sem þar er afleysingamaður og við fórum að kanna þetta betur og þá var bara lamb í ruslapoka inni í stórum húsbíl sem þau voru á og búið að skera það á háls,“ segir Björgvin.

Hreinn Pétursson, bóndi á Ósi, segir að mennirnir hafi verið illa talandi á ensku. Hann hafi talið níu menn sem flestir sögðust vera frá Afganistan en búsettir í Bandaríkjunum. Björgvin segir að þeir hafi borið virðingu fyrir lögreglumanninum þótt hann væri óeinkennisklæddur en áður en hann kom á staðinn hafi annað verið uppi á teningnum. „Þeir byrjuðu að ljúga og vildu ekki viðurkenna neitt. Þeir væru bara að taka myndir en svo þegar var farið að þjarma meira að þeim þá fóru þeir að bera fyrir sig að lina þjáningar lambsins. En þeir vildu ekki viðurkenna það strax. Þeir hefðu bara verið að taka myndir og eitthvað.“

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni Austurlandi var farið með sauðaþjófana á lögreglustöðina á Fáskrúðsfirði þar sem einn þeirra tók á sig að hafa drepið lambið, var sektaður um 120 þúsund krónur en þá hafði hann þegar greitt bóndanum tjónið, um 20 þúsund krónur. Þá var hann kærður fyrir brot á lögum um velferð dýra og eignaspjöll. Björgvin segir að lambið hafi verið á bilinu 10-12 kíló. „Það var ónotatilfinning að sjá lambið skorið á háls í svörtum ruslapoka og hnífurinn undir pokanum. Það er allt óhugnanlegt við þetta,“ segir Björgvin Gunnarsson, bóndi á Núpi í Berufirði.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV