Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ferðamenn í umferðarslysum á hverjum degi

07.06.2013 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Tryggingafélögin fá daglega tvær til þrjár tilkynningar frá bílaleigum um tjón, að sögn Gísla Níls Einarssonar, sérfræðings í forvarnarmálum hjá VÍS.

Stóran hluta slysanna má rekja til hraðaksturs auk þess sem margir ökumenn hafa litla reynslu af því að aka á malarvegum. Gísli segir nokkuð bera á því að bílaleigur séu með gamla bíla í lélegu ástandi, en hluta ástæðunnar megi rekja til þess að ferðamenn fari oft fáfarna sveitavegi.

Banaslys tengd ferðaþjónustu voru 136 á Íslandi á árunum 2000 til 2010, 56 prósent þeirra í umferðinni. Fjöldi ferðamanna hefur tvöfaldast frá árinu 2006 og samhliða því hefur bílaleiguleyfum fjölgað úr 60 í 125.

Til þess að draga úr slysum á ferðamönnum er nauðsynlegt, að mati Gísla, að miðla gengnum netið þeirri þekkingu sem til er um leið og ferðamenn bóka bílaleigubíl. Sérstakri síðu sé haldið úti um öryggismál fyrir ferðamenn á Íslandi en þar séu hlekkir á myndbönd um Umferðarstofu og upplýsingar um snjallsímaforrit um íslensku umferðarmerkin.