Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ferðamenn biðjast afsökunar á utanvegaakstri

18.07.2018 - 01:11
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Franskir ferðamenn sem staðnir voru að því að keyra utan vegar í Kerlingarfjöllum á mánudaginn hafa beðist afsökunar á framferði sínu og biðla til þjóðarinnar að fá að halda áfram för sinni um landið án þess að verða fyrir aðkasti. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá hópnum.

Samkvæmt yfirlýsingunni voru málavextir þeir að hópurinn, sem hafði dvalið yfir nóttina í skálanum í Kerlingarfjöllum, ók slóða í átt að Háafossi. Eftir að hafa ekið átta kílómetra var snjóskafl á veginum og jepparnir komust ekki lengra. Þá komu þau auga á hjólför vinstra megin við veginn „sem bentu til að hægt væri að sneiða fyrir skaflinn“ eins og segir í yfirlýsingunni.

Í kjölfarið festist einn jeppinn og ekki tókst að losa hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Því greip hópurinn til þess ráðs að óska eftir aðstoð starfsfólks í skálanum í Kerlingarfjöllum.

Segja skilti hafa verið illa staðsett

Starfsmaður kom á vettvang, tók myndir og gerði síðan lögreglu og björgunarsveitum viðvart. Að sögn ferðamannanna færði hann síðan til skilti sem á stóð innakstur bannaður „og setti það á veginn miðjan. Annar bíll hafði þá þegar lagt inn á slóðann. Skiltið var ekki nógu vel staðsett til að hægt væri að sjá það“.

Síðar um kvöldið kom björgunarsveitarfólk og lögreglumaður á staðinn og aðstoðaði hópinn en í kjölfarið fór fram lögreglurannsókn. Samkvæmt yfirlýsingunni fyllti fólkið upp í hjólförin eftir bílana og gisti aftur í skálanum í Kerlingarfjöllum um nóttina. Daginn eftir héldu þau á lögreglustöðina á Selfossi og greiddu þar 400 þúsund króna sekt eða 200 þúsund krónur á hvorn bíl.

Annar jeppi fólksins, sem myndir birtust af í fjölmiðlum, ber auglýsingu fyrir ferðaþjónustufyrirtækið Imagine 4x4. Fyrirtækið hafi mátt þola svívirðingar og ámæli vegna málsins en að sögn hópsins tengjast þau fyrirtækinu ekki neitt. Auk þess hafi þau mátt þola skammir af hálfu fólks sem borið hafi kennsl á jeppann.

„Umsjónarmaður í skálanum lét birta í blöðum og á Facebooksíðu skálans skammir um félagsskapinn „Imagine.com“ því við vorum með límmiða þaðan á bílunum. Þessi félagsskapur hefur síðan legið undir ámæli og svívirðingum en hann er ekki á Íslandi og hefur aldrei til landsins komið. Auk þessa höfum við sætt margvíslegum skömmum af hálfu ýmissa landsmanna.“

Hópurinn biðst afsökunar á að hafa keyrt út af veginum til að komast fram hjá snjóskaflinum, skynsamlegra hefði verið að snúa við og keyra til baka. Þau hafi mikinn skilning á hve mikils Íslendingar meti náttúru landsins, „sem er svo fögur og viðkvæm“. Hópurinn hafi lagt sig fram við að sýna náttúrunni fulla virðingu, „notum ruslapoka, flokkum sorpið, náttum þar sem það er heimilað“.

Þau segjast aldrei hefðu lagt á slóðann ef vegaskiltið, þar sem fram kom að vegurinn væri lokaður, hefði verið sýnilegra. Ef það hefði verið betur staðsett hefði starfsmaður í skálanum í Kerlingarfjöllum ekki þurft að færa það til eftir á.

Lögregla greindi hópnum frá því að vegna óvenju slæms tíðarfars hafi slóðinn verið ófær en í venjubundnu árferði væri hann fær á þessum tíma. „Af hverju voru ekki settir grjóthnullungar á enda slóðans, eins og við höfum séð annars staðar á landinu?“ er spurt.

Óska þess að fá að ferðast óáreitt um landið

Að lokum fer hópurinn þess á leit við þjóðina að fá að halda ferðalagi sínu um landið áfram án þess að verða fyrir aðkasti og biður um leið alla Íslendinga afsökunar.

„Okkur langar að halda ferðinni á Íslandi áfram, í friði og ró, án þess að verða fyrir aðkasti landsmanna. Ykkur alla Íslendinga biðjum við einlæglega afsökunar. Þetta axarskaft, sem við gerðum, skynjið þið sem níðingsverk á náttúrunni og við hörmum það innilega.“

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV