Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ferðafrelsi Róhingja í Bangladess takmarkað

16.09.2017 - 16:34
Myanmar's Rohingya Muslim ethnic minority children stretch their hands out to receive food distributed by locals at the Kutupalong makeshift refugee camp in Cox's Bazar, Bangladesh, Wednesday, Aug. 30, 2017. Thousands of Rohingya Muslims have
Rohingjar í flóttamannabúðum í Bangladess. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Stjórnvöld í Bangladess hafa tilkynnt um víðtækar hömlur á ferðafrelsi Róhingja-múslima sem hafa flúið þangað frá Mjanmar. Um 400 þúsund Róhingjar hafa komið yfir landamærin frá því í ágúst. Í frétt á vef breska ríkisútvarpsins er haft eftir lögreglu í Bangladess að flóttamennirnir verði að halda sig í búðum sem stjórnvöld hafa sett upp. Þeir megi hvergi annars staðar búa, ökumenn eru hvattir til að flytja þá ekki og nánast er bannað að leigja þeim húsnæði.

Reisa á flóttamannabúðir fyrir um 400 þúsund manns í grennd við borgina Cox's Bazar. Róhingjar hafa flúið unnvörpum undan ofsóknum stjórnvalda í Mjanmar, ofsóknum sem Sameinuðu þjóðirnar segja að stappi nærri þjóðernishreinsunum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur beðið mjanmörsk stjórnvöld að láta af valdbeitingu gegn Róhingjum en ekki hefur verið gripið til refsiaðgerða. Spenna milli Bangladess og Mjanmar hefur farið vaxandi eftir að straumur flóttamanna yfir landamærin þyngdist síðsumars.