Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ferðabann ESB gæti haft mikil áhrif á Ísland

16.03.2020 - 19:39
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Ferðabann til allra ríkjanna sem tilheyra Schengen-svæðinu gæti haft mjög mikil áhrif á Ísland, að sögn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra. Ursula von der Leyen, forseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ætlar að leggja til við leiðtoga þess á morgun að bann verði sett við ónauðsynlegum ferðum til aðildarríkjanna með það að markmiði að hefta útbreiðslu sjúkdómsins COVID-19 sem hlýst af kórónaveiru.

Von er Leyen sagði frá fyrirætlunum sínum í dag. Ísland, Noregur, Lichtenstein og Swiss eiga ekki aðild að ESB en tilheyra Schengen-svæðinu. Verið er að funda um málið í utanríkisráðuneytinu. „Þetta gæti auðvitað haft mjög mikil áhrif á Ísland, þetta eru mjög stór tíðindi og komu mjög brátt að í dag. Við erum að skoða þetta og munum ræða í ríkisstjórn á morgun,“ sagði Áslaug Arna í viðtali við Magnús Geir Eyjólfsson, fréttamann í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum í kvöld. Schengen-málefni heyra undir hana. 

Ef niðurstaðan verður sú að ferðabannið verði sett á, þá þarf að auka viðbúnað við landamæri Íslands, að sögn dómsmálaráðherra. 

Hefur Ísland aðkomu að þessari ákvörðun? „Við höfum ekki haft aðkomu að henni enn sem komið er, við vorum bara að fá hana til okkar núna og erum að ræða þetta og vitum svo ekki alveg hvert framhaldið verður eða hvenær þau hyggjast taka slíka ákvörun.“

Það verður rætt á ríkisstjórnarfundi á morgun hvort íslensk yfirvöld koma athugasemdum sínum vegna þessa á framfæri. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Magnús Geir Eyjólfsson