Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ferðaáætlanir geta bjargað mannslífum

18.07.2018 - 11:37
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg - Jónas Guðmundsso
Yfirgefnir bílar í vegkanti eru ekki óalgeng sjón hér á landi en geta vakið áhyggjur inni á hálendi, sérstaklega þegar ekki er vitað um ferðaplön þeirra sem skildu hann eftir. Undanfarin tvö ár hafa ferðalangar getað nálgast miða, með vísi að ferðaáætlun, til að skilja eftir í bíl sínum áður en haldið er af stað til göngu. Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg segir að dæmin sýni að ferðaáætlanir geti bjargað mannslífum.

Spjöldin eru í kreditkortastærð og er dreift á um 300 stöðum víðsvegar um landið. Þau fást til dæmis á bílaleigum, hótelum, upplýsingamiðstöðvum og gestastofum. Jónas segir að þeim hafi verið dreift undanfarin sex eða sjö ár en skilaboðamiðanum hafi verið bætt við fyrir tveimur árum. Þetta fyrirkomulag þekkist í Evrópu, Nýja-Sjálandi, nokkrum ríkjum Bandaríkjanna og víðar. 

„Þetta virkar þannig að fólk skrifar inn á spjaldið hvert það er að fara og hvenær það ætlar að snúa aftur,“ segir Jónas. Þeir sem finna bíl sem hefur verið yfirgefinn lengur en gefið er upp á miðanum getur þá prófað að hringja í uppgefið númer á miðanum og ef ekki næst í viðkomandi þá á að hafa samband við Neyðarlínuna. 

Aðspurður hvað gerist þegar bíll finnst þar sem komið er fram yfir áætlaðan komutíma segir Jónas að þá sé strax kallaður út mannskapur í leit. „Ef það er enginn miði þá fer af stað eftirgrennslan því enginn veit hvort fólkið er týnt eða ekki,“ segir Jónas. Þá er athugað hvort fólk hafi skilið eftir upplýsingar um ferðir sínar einhvers staðar og ef bíllinn er frá bílaleigu þá er kannað hvort fólkið hafi átt að vera búið að skila honum. Miðinn getur því stytt þann tíma sem fólk gæti þurft að bíða eftir aðstoð sé það í vanda. „Miðinn er mini-ferðaáætlun ef það má orða það þannig. Þetta er ferðaáætlun sem allir sem fara fram hjá bílnum geta brugðist við þegar þeir sjá þennan miða.“ 

Nokkur tilvik á ári

„Það gerist nokkrum sinnumá ári að það koma tilkynningar um bíla sem hafa verið stopp á bílastæðum eða á gönguleiðum. Ég man eftir þremur, fjórum tilfellum bara undanfarið. Til dæmis var kallað út til leitar á Norðurlandi þar sem bíll hafði staðið við upphaf gönguleiðar lengur en eðlilegt gat talist. Ökumaðurinn reyndist síðan vera í fyrsta skálanum á gönguleiðinni og hafði tafist eða ákveðið að vera lengur. Hann hafði ekki skilið eftir neina ferðaáætlun.“ 

Jónas segir erfitt að taka eftir bílum sem hafa staðið lengi á fjölförnum stöðum en að oft komi tilkynningar um bíla á fáfarnari leiðum. „Það gerist reglulega að farið er að grennslast fyrir um slíkt.“

Hafa ferðaáætlanir bjargað mannslífum? „Já, við höfum dæmi um það. Skemmst er að minnast Rúmenanna tveggja sem lentu í snjóflóði á Vatnajökli. Þeir voru með neyðarsendi á leigu frá Landsbjörg og ferðaáætlun þannig að um leið og þeir báðu um aðstoð þá var hægt að sjá hvar þeir voru, hversu margir og hvernig þeir voru búnir. Þetta auðveldar heilmikið. Í fyrra óskuðu þrír Baskar eftir aðstoð og staðsetningin sem þeir gáfu upp var röng og það var snarvitlaust veður. Í gegnum ferðaáætlun þeirra gátum við haft samband við tengilið á Spáni og fengið aðgang að neyðarsendi þeirra og séð staðsetninguna og þar af leiðandi fundið þá. Þetta hjálpar á margan hátt.“

Þá geti ferðaáætlanir einnig komið í veg fyrir að ráðist sé í kostnaðarsamar leitir. „Þá er búið að þrengja niður svæðið sem fólk er á og því hægt að senda einn lögreglubíl eða björgunarsveitarbíl og finna fólk fljótt vegna þess að góðar upplýsingar eru um það hvar fólkið er. Þetta hjálpar á margan máta.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV