Fengu sér í nefið við lyklaskiptin

01.12.2017 - 12:05
Mynd: RÚV / Þór Ægisson
Sigurður Ingi Jóhannsson tók í morgun við lyklum að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu af Jóni Gunnarssyni sem hverfur úr ríkisstjórn. Sigurður segir að hann hlakki til að bretta upp ermar og setja sig inn í þau mál sem eru brýnust. Sigurður Ingi og Jón Gunnarsson fengu sér í nefið við lyklaskiptin. 

Sigurður Ingi, hvernig leggst í þig að verða samgönguráðherra?
Bara mjög vel, þetta er auðvitað mjög spenanndi málaflokkur sem ég þekki þetta svosem ágætlega frá fyrri tíð sem sveitarstjórnarmaður og líka bara að hafa setið á þingi.

Sigurður Ingi segir að sín fyrstu verk verði að kynnast fólkinu og setja sig inn í þau mál sem eru brýnust. „Það eru fjölmörg verkefni hringin í kringum land, bæði í vegagerð, höfnum, flugvöllum. Þetta snertir líka alþjóðleg mál eins og loftferðir og slík. Og svo eru það byggðarmálin, ég hlakka mjög til að komast inn, bretta upp ermar og fara að gera eitthvað,“ segir Sigurður Ingi í viðtali við við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur.

Mörg mál þegar tilbúin

Jón Gunnarsson segir að nokkur mál séu þegar tilbúin. „Ég óska þér til hamigju með þessa stöðu. Þú ert að koma hér inn í ráðuneyti sem við settum á laggirnar í vor. Þú tekur hér við mjög góðu starfsfólki, góðum starfsanda. Það hafa verið mikil afköst hér á skömmum tíma þannig að fólk er tilbúið að leggja sig fram og er metnaðarfullt í starfi. Það eru líka hér mjög mörg góð mál sem eru tilbúin og ég verð tilbúin að taka við í þinginu eftir helgi, ef þér líst á að leggja á áfram með þau veginn. Þau eru eitthvað sem menn geta almennt verið sáttir um,“ segir Jón Gunnarsson.

Sigurður Ingi mun kalla Jón Gunnarsson á fund til að fara yfir hvaða mál mega bíða og hver ekki. „Takk fyrir það og ég veit að þú mælir allra manna heilastur þegar þú talar um starfsfólkið og vinnuna en ég ætla líka bara að þakka þér. Ég veit þú hefur unnið mjög gott starf. Ég veit ég mun líka kalla í þig í fund upp í ráðuneyti hérna kannski í næstu viku, þá getum við farið yfir hvar er skynsamlegast að halda áfram með góðu málin og hvaða mál er skynsamlegast að láta bíða aðeins,“ segir Sigurður Ingi.

Jón skilur sáttur við ráðuneytið

„Endilega en þau eru fá, eigum við ekki að fá okkur í nefið?“ segir Jón, og réttir Sigurði tóbakið. „Ég var búin að lofa því að hætta þessari vitleysu en bara fyrir þig,“ svarar Sigurður.

Jón skilur sáttur við ráðuneytið. „Ég er þakklátur, samstarfið hefur gengið vel. Við höfum verið að móta nýtt ráðuneyti þótt að auðvitað málefnin séu að gömlum merg. Það hefur gengið mjög vel. Við höfum verið afkastamikil. Þetta hefur verið mjög ánægjulegur tími en auðvitað skemmri en maður ætlaði. Það stendur upp úr hjá mér þakklæti til starfsfólksins til ráðuneytisins, til þess traust sem mér var sýnt,“ segir Jón.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi