Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fengu fæst atkvæði í lýðveldissögunni

Mynd með færslu
 Mynd:
Húmanistaflokkurinn fékk 33 atkvæði í þingkosningunum í gær. Það eru færri atkvæði heldur en nokkurt annað framboð hefur hlotið í alþingiskosningum á lýðveldistímanum. Fyrra metið átti Sólskinsflokkurinn sem hlaut 92 atkvæði í desemberkosningunum sem haldnar voru eftir að vinstristjórnin féll árið 1979. Þrír flokkar fengu færri atkvæði en sem nam fjölda þeirra sem skrifuðu undir meðmælendalista við framboð þeirra.

Húmanistaflokkurinn þurfti minnst 330 meðmælendur til að geta boðið fram og því ljóst að í mesta lagi tíundi hver meðmælandi listans studdi flokkinn þegar á hólminn var komið. Íslenska þjóðfylkingin þurfti 540 meðmælendur að lágmarki til að komast í framboð í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Flokkurinn fékk samtals 303 atkvæði í þessumt tveimur kjördæmum. Alþýðufylkingin þurfti 1.680 meðmælendur til að komast í framboð í fimm kördæmum en hlaut 571 atkvæði þegar upp var staðið.

Aðeins fimm frambjóðendur gátu kosið flokkinn

Húmanistaflokkurinn bauð aðeins fram í einu kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi suður. Frambjóðendurnir voru 22, ellefu færri en nam atkvæðunum sem flokkurinn fékk. Hér verður þó að taka tillit til þess að margir frambjóðenda flokksins gátu ekki kosið listann. Tíu þeirra búa utan Reykjavíkur, samkvæmt auglýsingu landskjörstjórnar um framboðslista, og sjö búa í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þar með er ljóst að aðeins fimm frambjóðendur flokksins gátu kosið hann og því ljóst að 28 atkvæðanna komu frá fólki sem ekki var á framboðslista.

36 hafa fengið innan við þúsund atkvæði

Allt frá því fyrst var kosið til Alþingis eftir lýðveldisstofnun hefur það gerst 36 sinnum að framboð hafi fengið innan við þúsund atkvæði. Fyrstur til þess var listinn Frambjóðendur utan flokka í Vestur-Húnavatnssýslu. Listinn fékk 93 atkvæði í alþingiskosningunum 1946. 

Sautján árum síðar fékk Óháð framboð í Austurlandskjördæmi 143 atkvæði. Frá 1974 til 2003 gerðist það í hverjum einustu kosningum að eitt eða fleiri framboð fengu innan við þúsund atkvæði. Oft voru þetta sérframboð úr stóru flokkunum fjórum sem buðu fram í einu kjördæmi. Síðastur slíkra lista var Óháðir í Suðurkjördæmi sem Kristján Pálsson, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leiddi eftir að hafa ekki fengið sæti ofarlega á lista Sjálfstæðisflokksins. Litlir kommúnistaflokkar buðu gjarnan fram á áttunda áratugnum og fengu á bilinu 121 til 480 atkvæði. 

Fjórir undir hundrað atkvæðum

Húmanistaflokkurinn með 33 atkvæði bættist í hóp þeirra framboða sem hafa fengið innan við hundrað atkvæði. Þar voru fyrir Verkamannaflokkurinn sem fékk 99 atkvæði í alþingiskosningum 1991, fyrrnefndir Frambjóðendur utan flokka í Vestur-Húnavatnssýslu og Sólskinsflokkurinn sem fékk 92 atkvæði 1979.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV