Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fengu bætur frá ríkinu eftir bólusetningu

27.03.2015 - 18:44
Skjáskot
 Mynd: RÚV
Þrjár íslenskar stúlkur hafa fengið tíu milljónir hver í bætur frá ríkinu. Þær fengu allar drómasýki eftir að hafa verið bólusettar gegn svínaflensu. Stúlkurnar höfðu undirliggjandi veikleika fyrir drómasýki og eru allar 75 prósent öryrkjar í dag.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá málinu í kvöld.  Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, sagði í Morgunútgáfunni fyrir tveimur árum að bóluefnið Pandemrix, sem notað var á árunum 2009 til 2011 gegn svínaflensu, hefði ekki verið notað hér á landi ef vitað hefði verið af hugsanlegu sambandi milli þess og drómasýki.

Þá höfðu komið fram vísbendingar um að bólusetning með bóluefninu stóryki hættu á drómasýki samkvæmt sænskri rannsókn. Drómasýkistilfelli höfðu verið greind í tólf löndum og hættan var mest fyrir börn og unglinga en einnig yngra fólk á aldrinum 21 til 30. Hlutfallslega fundust einna flest tilfelli í Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi. 

Haraldur sagðist þó ekki telja að tölfræðilegt samband væri milli bóluefnsins og drómasýki hér á landi. „En hinsvegar var tíðni drómasýki mjög há á Íslandi, og einna hæst. Við höfum verið með eitt tilfelli á fimm ára fresti Íslandi en allt í einu þetta árið vorum við með fimm tilfelli. Þrjú höfðu verið bólusett og tvö þeirra höfðu ekki tengst bólusetningu,“ sagði Haraldur í Morgunútvarpinu fyrir tveimur árum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV