Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Femínismi ekki einkamál kvenna

13.06.2014 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Það þarf að hætta að líta á femínisma sem einkamál kvenna segja feministar á Nordisk Forum í Malmö í Svíþjóð, stærstu jafnréttisráðstefnu Norðurlanda. 9000 konur taka þátt í henni. Þar á meðal 360 íslenskar konur og þónokkrir karlar líka.

Feministar fjölmenna til Malmö þessa dagana til að ræða jafnréttismál og setja skýr markmið fyrir framtíðina.  Jafnréttisbaráttunni er hvergi nærri lokið segja þeir. Nordisk Forum  hefur tvisvar verið haldin áður,  í Osló 1988 og í Finnlandi 1994. Hátt í fjögur hundruð Íslendingar taka þátt í ár, þar af eru margir með erindi, meðal annars  frú Vigdís Finnbogadóttir.  

Kynjagleraugum beitt

Ótalmargt er á dagskrá, feminísk hagfræði, kynfrelsi, konur á vinnumarkaði, menntun,  flóttamenn og fjölmiðlar, allt greint með svokölluðum kynjagleraugum. Einnig  framtíð femínismans. Næsta skrefið í því samhengi er að hætta að líta á femínisma sem einkamál kvenna að sögn Steinunnar Stefánsdóttur formanns kvenréttindafélags Íslands. 

Karlar 1-2% þátttakenda

Karlar eru innan við tvö prósent  þátttakenda á ráðstefnunni. Einn af þeim er Kári Sigurðsson sem starfar í félagsmiðstöðinni Hólmaseli. Hann segir að margir unglingar, líkt og fullorðnir, misskilji hugtakið feminismi. Feminsimi snúist um jafnrétti kynjanna, að við eigum að vera jöfn og metin að verðleikum en ekki eftir kyngervi. Kári reynir markvisst að miðla þessum skilaboðum til unglinganna sem hann starfar með.    

Það sé mikilvægt að karlar láti sig feminíska baráttu varða því ójafnrétti kynjanna bitni líka á körlum.  Hann nefnir  í því samhengi staðalmyndir drengja,  að þeir megi ekki gráta eða sýna tilfinningar án þess að  vera taldir aumingjar.

Nemendur þakklátir fyrir kennslu í kynjafræði

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir , kennari í Borgarholtsskóla, tekur undir þetta en hún er einn af fyrirlesurunum á ráðstefnunni  þar sem hún talar um kynjafræðikennslu í framhaldsskólum. Með nemendum sínum greinir hún menninguna út frá kynjunum. Finnur staðalmyndirnar í  stjórnmálum, poppmenningu, skólalífinu, í sjónvarpsþáttum og svo framvegis. Hún segir að afturför hafi orðið í jafnréttisbaráttunni sem birtist ekki síst í gegndarlausri klámvæðingu sem smitast út í allt samfélagið. Til dæmis í auglýsingum sem framahaldsskólanemendur gera fyrir böll. 

Hún segir að nemendurnir séu afar þakklátir fyrir að fá kennslu í að greina samfélagið út frá kynjafræðinni, og læra að það er í lagi að velja og hafna úr öllum skilaboðunum sem dynja á þeim á hverjum degi, til dæmis um útlit og fegurð. Hanna Björg  segir að gegndarlausar fegurðarkröfurnar sem gerðar eru til stúlkna í dag séu skýrt dæmi um bakslagið sem hafi orðið í jafnréttisbaráttunni.