Fellur á milli í fæðingarorlofskerfinu

13.10.2019 - 19:11
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ung kona sem gengur með sitt fyrst barn fær að óbreyttu ekki fæðingarstyrk námsmanna því hún fór í sex mánaða starfsnám erlendis. Hún segir að með því hafi hún dottið á milli skips og bryggju í fæðingarorlofskerfinu. 

Álfrún Pálmadóttir fór í námstengt starfsnám til Berlínar um áramótin og komst svo að því í sumar að hún væri ólétt. Það runnu svo á hana tvær grímur þegar hún fór að kanna rétt sinn til fæðingarstyrks. „Ég fékk síðan meira og meira á tilfinninguna að ég væri, sama hversu mikið ég spurði, og hversu nákvæmar spurningar og upplýsingar sem ég veitti þá fannst mér ég aldrei fá fullnægjandi svör.“

Í svörum frá Fæðingarorlofssjóði við fyrirspurnum hennar um hvaða rétt hún ætti segir að samkvæmt reglum um fæðingarstyrk námsmanna þarf að vera í fullu námi í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

Starfsnámið sem Álfrún fór í var ekki metið til eininga enda var hún nýútskrifuð úr Myndlistarskólanum í Reykjavík. Þar virðist Álfrún lenda utan kerfis. Sé námið ekki metið til eininga á Álfrún ekki rétt á styrk. Í ljósi þess að hún var ekki heldur að vinna sem launþegi á þessu tímabili á hún heldur ekki rétt á fæðingarorlofi.

Álfrún segist upplifa það að hafa dottið á milli skips og bryggju. „Það er bara fullkomlega mín upplifun núna, ég hafi farið út og óaðvitandi verið utan kerfisins á einhvern máta. Það er ekki hægt að meta hvar ég lendi og þá er ekki hægt að veita mér neitt fyrir þannig maður lendir fullkomlega á milli hluta.“

Þótt Álfrún hafi verið í sex mánuði í Berlín hefur hún alla tíð unnið á Íslandi. Kærasti Álfrúnar er myndlistarmaður og flutti með henni út til Berlínar. Þau eiga því líklegast hvorugt rétt á styrk eða orlofi. „Þetta eru ekki laun heldur þetta eru peningar til þess að barnið mitt geti alist upp fyrstu ár ævi sinnar í öruggi umhverfi.“ segir Álfrún.

Álfrún greip til þess örþrifaráðs að skrá sig aftur í nám við Háskóla Íslands og munar tveimur vikum frá settum degi og sex mánaða tímamarki fæðingarstyrks. Þau svör berast frá fæðingarorlofssjóði að nú þurfi hún bara að bíða og sjá hvenær barnið fæðist - hvort hún eigi rétt á styrk eða ekki. „Auðvitað er þetta höfnun, þetta setur rosa mikið strik í reikninginn og það er einhvern veginn svona, já það er svolítið erfitt að fá svörin um það að geta ekki treyst á að það muni virka en maður eigi að bíða og sjá af því þau geta ekki gefið nein svör.“

Fjölskyldan hefur vakið athygli þingmanna og félagsmálaráðherra á málinu. Fæðingarorlofssjóður tjáir sig ekki um málið að svo stöddu þar sem ekki hafi verið tekin formleg ákvörðun í máli Álfrúnar.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi