Fellibylur fer yfir Mósambík

15.03.2019 - 14:08
Erlent · Afríka · Mósambík · Veður
Mynd með færslu
Fellibylurinn Idai kom í dag að ströndum Mósambíkur. Mynd:
Á sjötta hundrað þúsund íbúar borgarinnar Beira við strönd Mósambík eru án rafmagns og símasambands eftir að hvirfilbylur kom þar á land. Hús hafa eyðilagst í óveðrinu, tré rifnað upp með rótum og rafmagnsmöstur fallið, að því er AFP fréttastofan hefur eftir starfsmanni almannavarna landsins.

Mikil flóð hafa verið í Mósambik að undanförnu. Að minnsta kosti sextíu og sex manns hafa dáið af þeirra völdum. Engar opinberar upplýsingar eru um manntjón í Beira af völdum hvirfilbylsins, en þök hafa fokið af sjúkrahúsi, lögreglustöð og sjö skólum auk þess sem nokkur íbúðarhús eru í rúst. Þúsundir íbúa Mósambík eiga um sárt að binda vegna óveðursins að undanförnu. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna ætlar að senda þangað tuttugu tonn af neyðarbirgðum við fyrsta tækifæri.

Óveðrið í heimshlutanum hefur einnig gert íbúum nágrannaríkjanna Suður-Afríku og Malaví skráveifu. Alls hafa 126 manns látið lífið af þess völdum síðustu daga.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi