Felix tekur við af Hrafnhildi í Eurovision

Mynd með færslu
 Mynd:

Felix tekur við af Hrafnhildi í Eurovision

20.03.2013 - 10:45
Felix Bergsson hefur verið ráðinn til að lýsa Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í beinni útsendingu á RÚV. Hann tekur við keflinu af Hrafnhildi Halldórsdóttur sem hefur lýst keppninni síðustu ár. Felix óttast ekki að hann fái ógeð af keppninni en hann sér einnig um þáttinn Alla leið á RÚV.

Í huga margra skiptir það ekki engu minna máli hver það er sem lýsir Evróvisjón en hvernig framlag Íslands í keppninni hljómar.  Hrafnhildur Halldórsdóttir hefur gegnt þessu hlutverki undanfarin ár og er mörgum enn í fersku minni viðbrögð hennar við því þegar Vinir Sjonna voru síðastir til að tryggja sér sæti í úrslitum keppninnar 2011.

Felix verður nátengdur Evróvisjón á Íslandi í ár því hann stjórnar einnig sjónvarpsþættinum Alla leið, þar sem farið er yfir öll lögin sem taka þátt. „Mér líst vel á þetta og það verður gaman að feta í fótspor þessa góða fólks,“ segir Felix en hann er staddur í París þar sem hann undirbýr sig af kappi og skrifar auk þess kvikmyndahandrit.

Felix hefur einu sinni farið á keppnina, þá sem fjölmiðlafulltrúi Vina Sjonna. Hann hefur aldrei tekið þátt í Evróvisjón en kveðst ekkert hræddur um að hann eigi eftir að fá ógeð af keppninni þótt hún verði svona stór hluti af hans lífi næstu vikur. „Nei, það er bara mjög gott að fá Alla leið til að undirbúa sig. Allt gerist mjög hratt í Malmö, þetta eru hátt í fjörtíu flytjendur og þar flýgur tíminn frá manni.“

Felix hefur ekki sett það alveg niður fyrir sig hvernig hann ætlar að lýsa keppninni. Hann segist þó ekki ætla að feta í fótspor bresku þulanna sem hafa nálgast þessa keppni með smá skvettu af kaldhæðni. „Ég held að þetta fari nú líka svolítið eftir persónuleika hvers og eins. Ég ætla að reyna að koma á framfæri skemmtilegum fróðleik sem fólk hefur kannski ekki gert sér grein fyrir. Þetta verður svipað  og góð veislustjórn þar sem öllum á að líða vel.“

Ísland verður í síðari undanriðlinum í ár en það er Eyþór Ingi sem flytur framlag Íslands, Ég á líf.