Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Félagskerfi bænda einfaldað á Búnaðarþingi

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Tillaga nefndar um félagskerfi bænda gerir ráð fyrir að aðildarfélögum að Bændasamtökum Íslands verði fækkað og að búnaðarsambönd sameinist með það að markmiði að einfalda kerfið. Búnaðarþing var formlega sett í hádeginu í dag.

Búnaðarþing fer fram annað hvert ár þar sem málefni landbúnaðarins eru rædd. Á þinginu eiga sæti fulltrúar aðildarfélaga Bændasamtakanna. Yfirskrift þingsins í ár er „Stöndum þétt saman“. Þingið var sett á Hótel Sögu í hádeginu í dag.

Ný landbúnaðarstefna í smíðum

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, ávarpaði þingið við setningu þess. Í máli hans kom fram að mótun nýrrar landbúnaðarstefnu af hálfu stjórnvalda sé í forgangi í ráðuneytinu. Fyrsti þáttur verkefnisins hefjist á næstu vikum, meðal annars með opnum fundum um allt land.

„Bú­vöru­samn­ing­ar hafa undanfarna áratugi verið önnur meg­in­stoða ís­lensks land­búnaðar. Síðustu búvörusamningar tóku gildi í upphafi árs 2016 og gilda til 10 ára en með reglulegri endurskoðun. Þetta fyrirkomulag hefur ýmsa kosti og skapar tiltekinn fyrirsjáanleika. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að til framtíðar þurfi heildstæðari stefnumörkun fyrir íslenskan landbúnað. Og í mínum huga er þetta hárrétti tíminn til að hefja slíka vinnu enda stendur íslenskur landbúnaður að mörgu leyti á krossgötum,“ segir Kristján Þór.

Búvörusamningar voru seinast undirritaðir árið 2016. Þeir gilda til 10 ára og eru endurskoðaðir reglulega. Seinast var skrifað undir endurnýjunarákvæði í nautgriparæktarsamningi í lok árs 2019. Kristján segir að landbúnaðarstefna sem miði að þessu markmiði verði að leggja áherslu á nýsköpun, vöruþróun, verðmætasköpun og sjálfbærni. Einnig verði stefnan að stuðla að náttúruvernd og leggja áherslu á rannsóknir og menntun.

„Því fagna ég tillögu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga að mótuð verði landbúnaðarstefna, um sameiginlega sýn og skýrar áherslur til framtíðar. Skýr landbúnaðarstefna til langrar framtíðar er hagur allra; bænda, neytenda, smásöluaðila, framleiðenda og stjórnvalda. Samhliða gefst tækifæri til að endurskoða landbúnaðarkerfið frá grunni. Við þurfum ekki að óttast endurskoðun. Hún er löngu tímabær og ég er sannfærður um að hún er forsenda frekari framþróunar greinarinnar. Mótun landbúnaðarstefnu er samvinnuverkefni bænda, neytenda og atvinnulífs, og stuðlar að frekari sátt um framtíð íslensks landbúnaðar,“ sagði Kristján Þór í ræðu sinni.

Aðildarfélögum verði fækkað og búnaðarsambönd sameinist

Meðal þeirra mála sem liggja fyrir Búnaðarþingi er einföldun félagskerfiss bænda. Samkvæmt tillögu nefndar er gert ráð fyrir að aðildarfélögum að Bændasamtökum Íslands fækki og að búgreinar verði grunnur að félagsaðild búnaðarsambandanna. Lagt er til að búnaðarsambönd sameinist eða taki upp samstarf um þau félagslegu verkefni sem felast í breyttu félagskerfi þannig að þau verði 4 í stað 11 nú. 

Þá er lagt til að horft verði til systursamtaka Bændasamtaka Íslands  á Norðurlöndum við endurskipulagningu kerfisins og Landbrug og fødevarer í Danmörku verði notað sem fyrirmynd að nýju kerfi.

Í því felst að tekið verði upp tveggja stoða kerfi þar sem Bændasamtök Íslands sé önnur stoðin, en fyrirtæki tengd landbúnaði myndi hina stoðina. Lagt er til að Landbúnaðarklasinn renni inní fyrirtækjastoðina, enda er það mat nefndarinnar að hann sé vísir að þeirri stoð. Sameiginleg stjórn samsett úr báðum stoðunum sé svo starfandi til að samþætta og samræma sjónarmið beggja stoða.

Þá liggur fjöldi tillagna frá aðildarfélögum fyrir þinginu sem snúa að umhverfismálum, jarðamálum, afleyingaþjónustu bænda, dreifikerfi raforku og fleira.