Félag fréttamanna á RÚV fordæmir handtöku

13.06.2019 - 13:05
epa06500567 (FILE) - Wikileaks founder Julian Assange speaks to reporters on the balcony of the Ecuadorian Embassy in London, Britain, 19 May 2017 (reissued 06 February 2018). Media reports on 06 Februray 2018 state that the British arrest warrant against Julian Assange is still valid, London, Westminster Magistrates' Court has ruled. Lawyers representing Julian Assange asked the court to withdraw the warrant issued in 2012 after he allegedly breached bail conditions by seeking asylum in Ecuador's London embassy.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Félag fréttamanna á RÚV hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna handtöku og yfirvofandi framsals Julian Assange stofnanda WikiLeaks til Bandaríkjanna. Þar er framganga breskra og bandarískra stjórnvalda fordæmd, um sé að ræða aðför að sjálfstæðum fjölmiðlum og uppljóstrurum um heim allan.

Í yfirlýsingunni segir að upplýsingar sem Assange birti um árásir Bandaríkjahers á saklausa borgara, sem meðal annars voru fengnar frá Chelsea Manning, hafi átt mikið erindi við almenning.

Assange hefur verið kærður vestanhafs fyrir að verða sér úti um og birta gögn er varða þjóðaröryggi og með því brjóta lög um njósnastarfsemi. Innanríkisráðherra Bretlands skrifaði í gær undir framsalsbeiðnina og gert er ráð fyrir að dómstóll taki ákvörðun um málið á morgun.

„Framganga Bandaríkjanna í þessu máli er ógn við frelsi fjölmiðla. Hætt er við því að mannréttindi Assange verði þar fyrir borð borin þar sem stjórnvöld ganga fram af mikilli og ómaklegri hörku í máli hans. Með ákæru bandarískra stjórnvalda gegn Assange og hugsanlegu framsali Breta á honum til Bandaríkjanna er einnig vegið gróflega að heimildavernd fjölmiðla. Vernd sem hefur verið kveðið skýrt á um í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu að sé meðal grunnskilyrða fyrir tjáningarfrelsi fjölmiðla. Án slíkrar verndar kynnu heimildarmenn að forðast það að veita fjölmiðlum upplýsingar í málum er varða hagsmuni almennings. Af því kann að leiða að grafið verði undan eftirlitshlutverki fjölmiðla og dregið verði úr möguleikum þeirra til að miðla nákvæmum og áreiðanlegum upplýsingum,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Að mati félagsins þrífst lýðræði ekki án sjálfstæðra fjölmiðla og ofsóknir stjórnvalda gegn uppljóstrurum grafi undan sjálfstæði fjölmiðla.

Skorað er á íslensk stjórnvöld að beita sér gegn framsali Assange til Bandaríkjanna. Alþingi hafi samþykkt eftir hrun þingsályktun um að Ísland ætti að skapa sér sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Lítið hafi verið um efndir hingað til. Stjórnvöld verði að starfa í anda þingsályktunartillögunnar og beita sér fyrir tjáningar- og upplýsingafrelsi bæði innan lands sem utan.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi