Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Fékk ríkisborgararétt mánaðargamall

18.12.2010 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Tæplega mánaða gamall drengur, Jóel Færseth Einarsson, fékk íslenskan ríkisborgararétt í dag. Staðgöngumóðir fæddi hann á Indlandi fyrir íslensk hjón. Staðgöngumæðrun er ólögleg hér á landi og því hafa íslensku hjónin verið föst á Indlandi frá fæðingu hans.

Forsaga málsins er sú að íslensk hjón fengu indverska konu til þess að ganga með barn fyrir sig. Notað var frjóvgað egg úr þriðja aðila með sæði úr eiginmanninum. Indverska konan mun hafa afsalað sér öllum rétti til barnsins með lögbundnum samningi þar í landi. Barnið fæddist í Múmbaí á Indlandi 13. nóvember síðastliðinn en á fæðingarvottorði hans eru íslensku hjónin skráðir foreldrar. Frá fæðingu barnsins hafa íslensku hjónin verið föst með hann á Indlandi en barnið var í raun ríkisfangslaust.

 Allsherjarnefnd Alþingis hefur fjallað um málið og eftir hádegi í dag lögðu níu þingmenn úr öllum flokkum nema Framsókn fram frumvarp um að veita 43 einstaklingum ríkisborgararétt. Þess má geta að fyrir Alþingi liggur tillaga 18 þingmanna úr öllum flokkum nema Hreyfingunni um staðgöngumæðrun sem miðar að því að undirbúa frumvarp sem heimili staðgöngumæðrun hér á landi.