Fékk fanga til að hugsa með því að tala um barneignir

Mynd með færslu
 Mynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Fékk fanga til að hugsa með því að tala um barneignir

05.02.2020 - 13:32
Ingibjörg Friðriksdóttir er með mastersgráðu í raftónsmíðum og upptökutækni frá Mills College í Kaliforníu. Ingibjörg er viðmælandi Hildar Kristínar Stefánsdóttur í hlaðvarpsþættinum Skaparanum.

Þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni hér.

Ingibjörg Friðriksdóttir er tónlistarkona, tónskáld, pródúser og hljóðlistakona. Hún fór í tónsmíði í Listaháskóla Íslands og flutti svo til Kaliforníu þar sem hún fór í mastersnám. Með námi í Kaliforníu starfaði hún sem framleiðandi í San Quentin fangelsinu í Kaliforníu þar sem hún starfaði við það að framleiða hiphop með föngum. Í fangelsinu geta þeir lært að gera tónlist og einnig eru þeir með útvarpsstöð. Eitt af því sem föngunum er kennt er að þeir verði að hugsa áður en þeir gera hlutina, Ingibjörg segir að ástæðan af hverju sumir af þessum mönnum séu í fangelsinu sé vegna þess að þeir stjórnuðust af tilfinningum sínum án þess að hugsa áður.
 

„Einhverntímann eru þeir að spyrja mig hvað ég sé gömul og ég segi þeim að ég sé þrítug og þá spyrja þeir: „En þarftu þá ekki að fara eiga börn?“ og ég meina, þeir voru allir fangelsaðir þegar þeir voru sautján ára en hefur samt tekist að búa til þrjá krakka. Svo ég hugsaði: „Já Ingibjörg þú þarft kannski að fara eiga börn bráðlega er það ekki? en ég segi „Nei veistu ég er að hugsa um að byrja að eiga börn þegar ég er svona 40, 45 ára. Ég meinti þetta ekki en mér fannst gaman að segja hluti sem ég vissi fyrirfram að yrðu aksjón innra með þeim og að þeir yrðu að hugsa,“ segir Ingibjörg. 

Ingibjörg og Hildur ræddu meðal annars um innsetningarverk sem Ingibjörg ákvað að brenna, hvernig hún ætlaði að vera fatahönnuður, fjólublátt mínípils sem hún gaf mömmu sinni, mikilvægi þess að hitta annað fólk á meðan sköpun stendur og fleira.

Í Skaparanum hittir Hildur skapandi fólk úr öllum geirum og spyr hvernig það skapar, hvernig það vinnur úr hugmyndum og hvað það gerir við hugmyndastíflu. Skaparinn er fyrir alla skapara og forvitið fólk sem kann að meta góðar hugmyndir.

Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir ofan, í öllum helstu hlaðvarpsveitum og á Spotify.