Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Fegraði bókhald Iceland Express

26.10.2011 - 10:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Matthías Imsland notaði farsíma í eigu Iceland Express til að hringja í starfsmenn félagsins og bjóða þeim starfa hjá nýju flugfélagi.

Honum var sagt upp fyrir að fegra bókhald félagsins.

Iceland Express hefur farið þess á leit að sýslumaður beiti lögbanni til að koma í veg fyrir að Mattías Imsland, fyrrverandi forstjóri félagsins, noti trúnaðarupplýsingar til að undirbúa stofnun nýs flugfélags.

Matthías segir lögbannsbeiðnina einungis til þess að sverta hann og kasta rýrð á störf hans.Í lögbannsbeiðni Iceland Express kemur fram, að Matthías sé enn með Blackberry-farsíma sem flugfélagið greiði fyrir. Símann hefur Matthtías notað til að hafa samband við viðskiptavini Iceland Express innan lands og utan, samkvæmt útskrift af símreikningi sem lögmaður Iceland Express lagði fram.

Þá hafi hann verið í miklu sambandi við viðskiptavini Express í Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi. Þessu til stuðnings er vísað í útskrift úr farsímanum sem Matthías hafði aðgang að í gegnum Iceland Express. Þetta sé bæði brot á lögum og ráðningarsamningi Matthíasar, en í honum er kveðið á um að hann megi ekki í tvö ár, frá lokum uppsagnarfrests, vinna hjá eða eiga í fyrirtæki sem starfi á sama markaði og Iceland Express.

Hann hefur einnig haft samband við fyrrverandi samstarfsmenn og boðið þeim störf hjá nýju flugfélagi. Eftir að Matthíasi var sagt upp störfum, hélt hann bæði borð- og fartölvu í eigu Iceland Express, þar sem var að finna trúnaðargögn um rekstur félagsins og framtíðaráætlanir. Í lögbannsbeiðninni segir að gögnin séu trúnaðargögn sem Matthíasi og þriðja aðila sé bannað að notfæra sér samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Stjórnendur Iceland Express sáu hins vegar enga ástæðu til að fara fram á að Matthías skilaði gögnum og tækjum í eigu félagsins þegar honum var sagt upp. Í lögbannsbeiðninni kemur fram að traustið til Matthíasar hafi verið slíkt, að ekki hafi þótt ástæða til annars en að hann væri áfram með síma og tölvu Iceland Express.

Samkvæmt ráðningarsamningi Matthíasar mun honum óheimilt að ráða sig til starfa hjá eða stofnsetja samkeppnisfyrirtæki í tvö ár frá síðasta starfsdegi. Við uppsögn hafi Matthíasi verið greint frá því, að staðið yrði við hálfs árs uppsagnarfrest og lokalaunagreiðsla yrði því 1. apríl 2012.

Ástæða uppsagnar Matthíasar er einnig tilgreind í lögbannsbeiðninni. Þar segir að hann hafi sem forstjóri félagsins fegrað uppgjör þess, fært kostnaðarliði sem eignir og þannig reynt að sýna fram á betri afkomu af rekstri en raunin var. Hann hafi áætlað tekjur sem enginn fótur hafi verið fyrir.