Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Feðrum sem taka fæðingarorlof fækkar enn

05.04.2017 - 17:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
74% feðra tóku fæðingarorlof á síðasta ári og heldur þeim áfram að fækka. Hlutfallið var 80% í fyrra og 90% árið 2008 en þá var byrjað að skerða hámarksgreiðslur.

Þetta kemur fram í frétt á vef BSRB, en þar er vitnaði í nýjar tölur frá Fæðingarorlofssjóði. Þó er settur sá fyrirvari að tölur síðustu tveggja ára eru bráðabirgðatölur.

Að auki taka þeir feður sem þó nýta sér fæðiungarorlof færri daga en áður. Árið 2008 tóku feður að jafnaði 101 dag í fæðingarorlof, en í fyrra um 75 að meðaltali. Þessum dögum hefur líka farið fækkandi ár frá ári. Einnig kemur fram að 11% feðra tóku sér lengra orlof en þá þrjá mánuði sem aðeins feður geta tekið, en 23% feðra tóku lengra orlof árið 2008. Á móti tóku um 50% feðra styttra orlof en þrjá mánuði í fyrra, samanborið við 22% árið 2008.

Á sama tíma hafa litlar breytingar orðið á töku fæðingarorlofs hjá mæðrum, sem bendir til þess að mæður axla meginábyrgðina á umönnun barna þangað til dagvistunarúrræði tekur við. Þó eru langflest börn yngri en eins árs ekki í dagvistun.

Í haust voru gerðar breytingar á fæðingarorlofi. Hámarksgreiðslur voru hækkaða í 500 þúsund krónur á mánuði og þá má taka fæðingarorlof þangað til barnið verður tveggja ára. Áhrifin af þessum breytingum fara ekki að koma fram fyrr en í haust.

BSRB hvetur til þess að fæðingarorlofið veðri lengt í 12 mánuði og að hámarksgreiðslur hækki í 600 þúsund krónur á mánuði.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV