Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

FBI ætlaði að nota hakkara sem tálbeitu

14.02.2013 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Innanríkisráðherra sagði á Alþingi í morgun að það væri sitt mat að bandaríska alríkislögreglan hefði ætlað sér að nota tölvuhakkarann Sigga sem tálbeitu til að nálgast uppljóstrunarsíðuna Wikileaks. Þingmaður Hreyfingarinnar segir íslensk lögregluyfirvöld hafa kokgleypt lygasögu tveggja hakkara.

Sérstök umræða um heimsóknir FBI til Íslands sumarið 2011 var á Alþingi í dag. Málshefjandi var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Hún gagnrýndi Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, harðlega og sagði hann hafa vegið að frelsi ákæruvaldsins.  

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, upplýsti að á fundum hjá nefndum þingsins í vikunni hefði Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, sagt að hún hefði orðið mjög hissa þegar innanríkisráðherra ákvað að slíta á öll tengsl við FBI og vísa þeim úr landi. Henni hefði þótt þær aðgerðir stórundarlegar. Að mati ríkissaksóknara, sagði Siv, væri hér um tvö nátengd mál að ræða.

Ögmundur ítrekaði þá afstöðu sína, að ekki hefði borist réttarbeiðni fyrir síðari heimsókn FBI hingað til lands. Hann fullyrti að yfirvofandi tölvuárás á Stjórnarráðið, sem var upphafið að samstarfi FBI og íslenskra lögregluyfirvalda, og síðari heimsókn FBI í ágúst væru tvö ótengd mál og því hefði FBI átt að senda aðra réttarbeiðni. Ögmundur sagði það hafa komið í ljós að alríkislögreglan hefði verið hér á landi til að afla gagna fyrir sakamál í Bandaríkjunum gegn Wikileaks.

Ömgundur átti lokaorðið í umræðunni og sagði að það væri hans mat að FBI hefði ætlað að nota tölvuhakkarann Sigga sem tálbeitu til að nálgast Wikileaks.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, gaf íslenskum lögregluyfirvöldum falleinkunn í málinu. Þau hefðu kokgleypt lygasögu tveggja hakkara, Sabu og Sigga, og hefðu með smá rannsóknarvinnu getað sparað sér ferð til Bandaríkjanna.  Lögreglan á Íslandi hefði með þessu opnað þann möguleika hjá FBI að koma til Íslands á fölskum forsendum.