Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Faxaflóahafnir boða gjaldtöku af ferðamönnum

09.05.2016 - 22:03
epa02094231 A humpback whale searches for food in the waters of the Pacific Ocean in Guatemala during a whale watching on 26 March 2010. Environmentalists and Guatemalan authorities launch a campaign in order to regulate the whale watching activities in
 Mynd: EPA - EFE
Faxaflóahafnir hafa engar beinar tekjur af þeim hátt í tvö hundruð þúsund ferðamönnum sem fara árlega í hvalaskoðunarferðir frá Reykjavíkurhöfn. Til stendur að innleiða sérstakt farþegagjald, sem heimild er fyrir í lögum, eftir eitt og hálft ár.

Hvalaskoðun hefur á síðastliðnum tveimur áratugum orðið að stærstu afþreyingargrein ferðaþjónustunnar í höfuðborginni, og sú þriðja stærsta á Íslandi. Greinin skilaði fjórum milljörðum króna í gjaldeyristekjur árið 2014 á landsvísu, og í fyrra fóru ríflega 272 þúsund ferðamenn í hvalaskoðunarferðir. Áætlað er að á þessu ári borgi hátt í 330 þúsund ferðamenn fyrir hvalaskoðunarferðir, eða næstum þúsund ferðamenn á dag, allt árið um kring.

Fjórði hver ferðamaður fer í hvalaskoðun

Þetta þýðir að fjórði hver ferðamaður sem kemur til landsins fer í hvalaskoðunarferð á Íslandi, langflestir frá Reykjavíkurhöfn. En þessi mikla fjölgun hefur ekki endurspeglast í tekjum Faxaflóahafna af greininni, þar er ekki innheimt neitt farþegagjald, þrátt fyrir skýra heimild til þess í hafnalögum, en Faxaflóahafnir hyggjast breyta þessu. 

Tekjur Faxaflóahafna af hvalaskoðunarfyrirtækjunum hafa til þessa einskorðast við viðlegugjöld og lóðaleigu undir söluskúrana við Suðurbugt, á annan tug milljóna króna á ári. Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að upphæðin standi hvergi nærri undir nauðsynlegum framkvæmdum í höfninni, meðal annars til að bæta bráðabirgðaaðstöðu hvalaskoðunarfyrirtækjanna til frambúðar.

„Við höfum tekið ákvörðun um það að taka upp farþegagjald 1. janúar 2018,“ segir Gísli í samtali við fréttastofu. „Samhliða því ætlum við að reyna að vera með áætlun um það hvernig þessari aðstöðu verði best fyrir komið.“

Nær líka til farþega skemmtiferðaskipa

Gísli segir að upphæð farþegagjaldsins liggi ekki fyrir að svo stöddu, það muni taka mið af kostnaði hafnarinnar af starfseminni og ná jafnt til farþega hvalaskoðunarfyrirtækjanna sem og skemmtiferðaskipa. Áætlaður kostnaður Faxaflóahafna vegna nauðsynlegra framkvæmda í Reykjavíkurhöfn er um 100 milljónir króna. Hafnarstjórinn segir að farþegagjöld, sem kveðið er á um í Hafnalögum, hafi lengi verið vannýttur tekjumöguleiki fyrir hafnir landsins.

„En það er hins vegar alveg deginum ljósara að þessi þjónusta er mjög vaxandi og það er mjög kærkomið fyrir hafnir mjög víða á landinu. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt fyrir hafnirnar að nýta þá tekjumöguleika sem þær hafa til þess að standa undir rekstri og uppbyggingu og ég á von á því að innleiðing á þessu gjaldi verði almenn hjá þeim höfnum sem eru með ferðaþjónustu,“ segir Gísli Gíslason.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV